20. maí 2012

Níu holur í fyrsta sinn

Þessa dagana er staddur hér vinnufélagi minn frá Íslandi, Hannes að nafni. Hann er mikill golfáhugamaður og heldur því fram sem staðreynd að inni í mér sé dulinn golfspilari. Ég hef ekki látið glepjast af þessu rausi.

Ekki enn.

En þar sem Rúnar Atli hefur stundað golfíþróttina af miklum móð síðan í haust var ákveðið að hann og Hannes færu saman níu holur á vellinum hér í Lílongve og að ég kæmi með sem kylfusveinn sonarins og myndatökumaður. Rúnar Atli hefur aldrei spilað þetta margar holur í einu. Tekið eina eða tvær á sumum æfingum. Ég var svolítið forvitinn að sjá hvernig hann stæði sinn, skal ég viðurkenna.

Í gær mættum við því hjá golfklúbbi Lílongve og ætluðum að leggja af stað. Ekki var nú kálið sopið þótt í ausuna væri komið. Kom í ljós að hvorugur golfspilaranna uppfyllti kröfur um klæðaburð. Annan vantaði kraga á bolinn og hinn vantaði sokka. Kylfusveinninn, þ.e. ég, þurfti því að stökkva upp í bílinn, bruna heim og ná í viðeigandi klæðnað. Fyrsta lexía mín var því að kylfusveinninn er eins og rótari hjá hljómsveit; allsherjar reddari.

En svo var haldið út á fyrstu braut og farið að slá.

Hér er Rúnar Atli að slá upphafshögg. Ekki kann ég að dæma stílinn, en mér þótti guttinn almennt bera sig flott að á golfvellinum.

Svo þurfti að pútta.

Hér er golffélaginn, Hannes. Ekkert dregið af sér, höggkrafturinn þvílíkur að kylfan náðist ekki á mynd. Takið svo eftir sokkunum flottu sem kylfusveinninn reddaði.

Hér er Rúnar Atli á öðru höggi á miðri braut. Með kylfu númer fimm. Ein af mínum lexíum var að læra muninn á kylfum númer fimm, sjö og níu. Kylfusveinninn þarf jú að veita kylfingnum góð ráð öðru hvoru. Þá verður að kunna skil á mismunandi kylfum. Annars er allt í tómu tjóni og kylfusveinninn missir vinnuna.

Ég hef lítinn samanburð, en mér þótti þessi golfvöllur skemmtilegur og umhverfið fallegt. Takið t.d. eftir stóra trénu sem er á miðri braut hér á myndinni að ofan. Það setur skemmtilegan svip á brautina. Og svo þarf að komast framhjá því.

Hér á næstu mynd sést að sonurinn komst framhjá trénu. Ekki nóg með það, heldur náði að vippa yfir sandgryfjuna sem er fyrir aftan hann á myndinni. Svo er að vippa boltanum inn á flötina. Til þess er kylfa númer níu hentugust. Að áliti kylfusveinsins, a.m.k.

Svo þurfti auðvitað að pútta. Einbeitingin mikil og spenna skín úr augum þeirra sem á horfa.

Á endanum komumst við allar níu holurnar. Tók það tvo tíma. Kylfingurinn ungi var orðinn nokkuð þreyttur þegar þar var komið sögu. En rétt er að taka fram að fyrr um daginn var hann á tveggja tíma fótboltaæfingu. Líklega hefðu sex holur verið mátulegar að þessu sinni.

Þetta var skemmtilegt, verður að viðurkennast. Hvort ég láti undan pressu og fari að leggja stund á þessa íþrótt skal ósagt látið. En ég skil þó betur en áður hvert aðdráttaraflið er.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...