10. maí 2012

Þá er komið að körfunni

Alltaf er maður að leita að einhverjum íþróttum til að stunda. Þótt maður sé orðinn miðaldra. Er það ekki einmitt þá sem maður vill halda í ungdóminn og fer að gera allskyns hluti sem maður gerði í kringum tvítugt? Og stórslasar sig í kjölfarið. Einhvern tímann hef ég heyrt svoleiðis vitleysu haldið fram.

Í mínu tilviki er ég alltaf að leita að einhverju til að gera með ungum syni mínum. Hvað annað? Hafa ofan af fyrir honum. Hann er jú ágætlega aktívur. Æfir karate þrisvar í viku og golf einu sinni í viku. Við tökum stundum fótboltaspretti í garðinum og nýlega fór hann að mæta á fótboltaæfingar á laugardagsmorgnum. Og ég elti eins og rogginn hani.

Ekki má gleyma hjólreiðunum. Reyndar hefur orðið aðeins minna úr þeim en til stóð, en mér tókst fyrir endemis klaufaskap að skemma annan petala-arminn á nýja hjólinu mínu. Í miklu ofboði tókst að finna nýjan í S-Afríku og koma hingað, en strandað hefur á nauðsynlegu verkfæri. Ég hef nokkuð góða von til þess að verkfærið komi í leitirnar á morgun og þá verði hægt að hjóla á ný.

Sonurinn er sem sagt aktívur og ég reyni svona eitthvað að hökta með ef tækifæri gefst.

Um skeið hef ég leitað að körfuhring og -spjaldi. Það er ágætis stétt fyrir framan húsið okkar og ég sé fyrir mér hvar hægt er að festa körfuspjald upp. En erfiðlega hefur gengið að finna svoleiðis. Reyndar ýmis staðir sem selja hringinn, en spjaldið er hins vegar vandfundið. Körfuboltahugmyndin hefur því ekki gengið upp.

Þar til í dag.

Eða reyndar í gær. Þá sá ég auglýsingu frá fólki sem er að flytja aftur heim til Bandaríkjanna. Þarf það að selja ýmsa hluti. Þar á meðal var frístandandi karfa. Einhver eðalgripur fluttur hingað frá Bandaríkjum Norður Ameríku. Með NBA merkinu og alles. Ég tvínónaði ekkert við þetta, brunaði heim til fólksins, skoðaði gripinn og festi kaup á honum. Sótti hann svo í dag, eftir vinnu.

Þessi karfa er alveg brillíant. Hægt er að hækka hana og lækka eftir vild á mjög auðveldan hátt. Þetta er svona alvöru. Við Rúnar Atli fórum í asna, en þann leik þekkti hann ekki. Svo dunduðum við okkur við að skiptast á að skjóta á körfuna. Mjög skemmtilegt.

Við verðum örugglega orðnir svakalega góðir eftir ár. Eða tvö. Verðum líklega svona mulningsvél, feðgarnir saman. Þessir guttar úr neðra-Breiðholtinu munu ekki eiga séns. Ísak Máni hvað? Logi Snær? Aldrei heyrt á hann minnst...

En hér er guttinn að taka skot. Með boltanum sem hann fékk frá Óskari á sínum tíma í Namibíu. Augnabliki eftir að myndavélin smellti af þá söng í netinu. „Nothing but net!“ eins og sagt er á ameríkönskunni.


Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...