25. desember 2011

Aðfangadagur; kominn og farinn

Jóladagur runninn upp hér í Lílongve. Þrjátíu-og-eitthvað stiga hiti og allir taka lífinu með ró. Rúnar Atli dundar sér í dótinu sínu, Tinna Rut og ég sitja úti bak við hús, hundurinn liggur undir borði og hrýtur, Dagmar Ýr prjónar og Gulla farin að stússast í eldhúsinu. Kötturinn... veit ekki hvað hann er að gera, en hænurnar vappa um garðinn.

Gærdagurinn var fínn, eins og við var að búast. Fyrri hluti hans fór í snatt, því ýmislegt þurfti að útrétta, svona eins og gengur og gerist. Svo var ýmislegt smálegt sem þurfti að klára. Síðast jólaskrautið þurfti að komast upp. Dútl við smákökur þurfti að klára og ýmislegt í þeim dúr.

Smákökur, já. Ég bakaði eina tegund, súkkulaðibitasmákökur, Tinna Rut og Gulla tóku piparkökur saman og Dagmar Ýr bakaði mömmukökur. Aðalmálið var auðvitað að leyfa Rúnari Atla að taka þátt í smákökubakstri, en svo æxluðust mál þannig að hann var alltaf upptekinn við eitthvað annað og tók því minnstan þátt í kökubakstrinum.

Svo var það piparkökuhúsið.

Æ, nei, ég held ég sleppi því að segja frá því. Skemmst er frá að segja að það mistókst. Allhrapalega.

Og ekki orð um það meir.

Jólin voru hefðbundin, ja, svona eins og hægt er þegar úti er hásumar og yfir þrjátíu stiga hiti. Jólafötin okkar Rúnars Atla voru t.d. ekki hefðbundin. Báðir vorum við í stuttbuxum og stuttermaskyrtu. Ætli við höfum ekki öll verið berfætt. Held það bara.

Jólasteikin var þó hefðbundin. Við fundum nefnilega svínahamborgarahrygg hér í búð um daginn. Hann smakkaðist vel. Við sáum úti við, en bak við hús erum við með ágætissvæði með matarborði og þar er líka sófasett og grillaðstaða. Þar er yfirleitt svalur vindblær um kvöldmatarleytið og því þægilegt að sitja þar úti og borða.

Ætli sé ekki við hæfi að fyrsta myndin hér sýni uppvöskunarliðið?


Við Dagmar Ýr vorum upptekin við ýmislegt annað mikilvægt, he-humm.

Heyrðu, svo gerðist reyndar merkilegur atburður seinnipartinn í gær. Algjörlega óundirbúinn.

Rúnar Atli missti tönn. Önnur tönnin sem fer þegar hann er að þurrka sér eftir sturtuferð. Ekki veit ég hvernig honum tekst að flækja handklæðinu utan um tönn, en hann hefur nú gert þetta tvisvar. Auðvitað var tekin mynd í tilefni atburðarins.


Þegar hann fór í háttinn um kvöldið, þá átti hann í miklu sálarstríði. Átti hann að setja tönnina undir koddann og fá 500 malavíska kvaka fyrir tönnina, eða átti hann að eiga hana sjálfur og fórna peningunum? Hann ákvað að halda þessari tönn og er því ekki 500 kvökum ríkari í dag. En er sáttur.

Jólatréið var óhefðbundið þetta árið. Við vorum aðeins of sein að kaupa okkur jólatré og voru þau búin þegar til átti að taka. Því skreyttum við bara í kringum arininn, sem við notum aldrei til að kveikja eld í, og skelltum pökkunum inn í arininn. Kom bara vel út.

Hér er myndin sem alltaf er tekin: Börnin hjá „tréinu“ og pökkunum. Takið eftir, öll eru berfætt.


Í bakgrunni sjást marglitir miðar upp á vegg. Á þeim stendur gleðileg jól á margvíslegustu tungumálum.  Veggurinn setur skemmtilegan svip á stofuna.

Eins og hefð er fyrir, þá sá Rúnar Atli um að sækja pakka, lesa á þá, og útdeila til viðeigandi fjölskyldumeðlims. Hann hefur sjóast í þessu í gegnum tíðina og er orðinn glúrinn við að dreifa gjöfunum, þ.a. sá sami sé ekki að opna marga í röð. Ja, reyndar gildir sú regla ekki alveg um hann sjálfan, en ástæðan er jú sú að hann fær megnið af gjöfunum og þarf því stundum að taka upp nokkra í röð.

En hér er guttinn að finna fyrsta pakkann. Ég held meira að segja að þetta sé pakki handa föður hans.


En eins og segir í einhverjum söngtexta, þá var gleðin við völd hjá okkur í gær. Hér er Rúnar Atli spenntur við að opna einn pakka. Auðvitað var hann ánægður með innihaldið. Hvað annað?


Eitthvað hefur stundum gengið brösulega hjá okkur Gullu að láta heimilisbókhaldið ganga upp í lok mánaðar. Því fékk ég þá snilldarhugmynd að gefa henni reiknivél. Héðan í frá mun bókhaldið sko ganga upp. Ekki spurning.


Ein besta gjöfin hennar Tinnu Rutar kom frá systur hennar. Nestisbox og -brúsi merkt bíómyndinni Martröðin fyrir jólin (e. The nightmare before Christmas). Þessi ungdómur er bara ekki alveg í lagi...


Úr Eyjabakkanum komu tvær syrpur. Kátína yfir þeim. Fótboltasokkarnir voru líka vel þegnir, þótt engin sé mynd af þeim.


„Bíddu, hvað er að þessu liði? Bíómynd handa mér sem var búin til þegar pabbi og mamma voru enn táningar.“ Þetta virtust fyrstu viðbrögð Rúnars Atla þegar hann fékk fyrstu myndina um ferðalög Griswald fjölskyldunnar. Honum þykir jólamyndin með skemmtilegri myndum, en eitthvað virtist hann efins um gæði þessarar.


„Hver fær næsta pakka?“ Vandasamt val.


Að lokum er hér ein mynd af Rúnari Atla í jólagjöfinni frá ömmu sinni. Keppnistreyja UMF Grundarfjarðar. Fer honum vel. Enda númer 10, alveg eins og Messi!


Allir fóru sofa í gærkvöldi, þreyttir en sáttir.

Kvöldið var skemmtilegt, þótt á nýjum stað væri. Það undarlegasta var þegar nágrannar okkar tóku upp á því að skjóta upp flugeldum. Það hef ég aldrei vitað neins staðar á aðfangadagskvöldi. Hundurinn okkar var ekki sáttur og kom fljúgandi inn í stofu, hríðskjálfandi. Þetta er annars útihundur, sem aldrei fær að koma inn, en við sáum aumur á honum í gær útaf þessum hávaða. Flugeldahernaðurinn stóð þó ekki yfir lengi.

Svo má ekki gleyma að minnast á flotta gjöf sem við Gulla fengum frá dætrum okkar. Myndaalbúm með hinum og þessum myndum úr okkar lífi. Þær eyddu þónokkrum tíma í að finna myndir og skanna inn og síðan létu þær gera flotta bók úr þessu hjá Odda. Alveg meiriháttar flott gjöf, sem kom foreldrunum mjög á óvart.

Skemmtilegt aðfangadagskvöld þetta árið.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gleðilega hátið og takk fyrir drengina okkar.
Kveðja úr Eyjabakkanum.

Erla sagði...

Við sendum hátíðarkveðjur í hitann til ykkar. Gleðilegt nýtt ár, við sjáumst vonandi eitthvað á árinu!
Drengirnir virðast vera mjög samstíga í tannamálum, Óskar var að missa tönn númer fimm. Ekkert handklæði hér, en við reyndum að skjóta hana út með Nerd byssuskoti. Það gekk ekki alveg, en hún er amk. komin út. Hvíta Namibíujólatréð trónir á stofugólfinu.
Bestu kveðjur frá Erlu, Davíð og drengjunum.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...