Í dag átti ég ágætt tækifæri að horfa úr lofti á tvö lönd. Malaví, annars vegar, og S-Afríku, hins vegar. Ég flaug reyndar yfir Simbabve líka, en var ekkert að glápa út um gluggann þá.
Malaví er eitt af þéttbýlustu löndum í heimi. Ef vötn eru dregin frá, þá búa tæplega 16 milljónir manna á rúmlega 94 þúsund ferkílómetrum. Níu þúsund færri ferkílómetrar en Ísland. Margfalt fleira fólk. En það svæði sem ég sá út um gluggann í dag (flugleiðin milli Lílongve og Blantyre) var ekki þéttbýlt. Fjalllent og ekki mikið af íbúum og ekki mikið af ökrum.
Akrarnir í Malaví eru frekar litlir, enda einstaklingar sem plægja þá með eigin vinnuafli. Engir traktorar og engir uxar sem draga plóga. Nei, tvær, þrjár manneskjur sem rífa upp jörðina með einhverju áhaldi sem ég veit ekki hvað heitir á íslensku. Handplógur, kannski?
Þá voru nú akrarnir öðrum vísi nálægt Jóhannesarborg. Stærðarinnar flæmi. Það sem ég tek alltaf eftir þegar ég flýg þarna yfir er hversu margir akranna þar eru kringlóttir. Eins og einhver hafi tekið risastóran sirkil og teiknað heilmikið af kringlóttum ökrum.
Þeir eru misstórir, þeir stærstu hljóta að vera með radíus á annað hundrað metra. Reyndar er erfitt að meta þetta úr lofti. Lögunin er til komin vegna vökvunarkerfisins. Frá miðju hringsins er sett upp vatnsrör á hjólum sem nær út að jaðri hringsins. Einhver mótor sér svo til þess að rörið fer hring eftir hring þegar er vökvað. Nokkuð sniðugt kerfi, sem ég hef líka séð sumstaðar í Namibíu.
Í Malaví eru áveitukerfi fátíð. Þar treysta menn á rigninguna, þ.e.a.s. guð og lukkuna. Stundum er lukkan hliðholl, stundum ekki. Þessa dagana liggja menn á bæn og biðja þess að rigningartímabilið hefjist. Ef það gerist ekki bráðum, þá verður lítill matur til á næsta ári.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Bara alltaf í Amsterdam
Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...
-
Áðan skruppum við í göngutúr um nágrennið okkar. Ég var búinn að stúdera næstu götur svolítið á kortavef hr. Gúguls og var kominn með áætlun...
-
Rúnar Atli fékk að fara eftir skóla heim til bekkjarbróður síns, Liams. Liam og Rúnar Atli eru virkilega góðir vinir og alltaf mikill spenni...
-
Þá er komið að því að ræða viðhaldið. Nei, nei, hvað er að ykkur? Skammist ykkar. Auðvitað er allt er í fínu hjá okkur Gullu. Ja, a.m.k....
Engin ummæli:
Skrifa ummæli