26. desember 2011

Hvað gerðirðu í gær?

Skrapp með frúnni áðan í matvörubúðina. Eigum von á matargestum í kvöld og aðeins þurfti að bæta á búrið.

Náunginn sem vigtar ávexti og grænmeti í búðinni spurði mig hvernig jólin hefðu verið.

,,Jú, ágæt, þakka þér fyrir,'' svaraði ég. ,,En þín jól?"

Náunginn hristi höfuðið og andvarpaði: ,,Ekki góð."

,,Nú?"

,,Mig vantar peninga," var svarið, ,,ef maður á peninga, þá er allt miklu betra."

Við ræddum aðeins hvort peningar væru virkilega svarið við öllu. Að lokum sagði hann: ,,Allt er á leiðinni fjandans til."

Ég var forvitinn hvað hann ætti við.

,,Jú, heimsendir nálgast. Allir spádómar Biblíunnar eru að rætast. Bráðum kemur heimsendir."

Þegar þarna var komið sögu var allt grænmeti vigtað, svo ég þakkaði pent fyrir og hélt áfram að versla. Heimsendir kemur varla í dag.

Svo kom að því að borga. Mjög almennileg afgreiðslustúlka spurði mig hvernig jólin hefðu verið. Þegar ég hafði sagt henni það kom næsta spurning:

,,Fórstu í messu í gær?"

Ekki gat ég svarað því með jái. Og fann vandlætingarstrauma frá þessari annars vinalegu stúlku.

Á leiðinni út í bíl velti ég því fyrir mér hvort hún hefði haldið að hefði farið í kirkju og því væri þetta gott umræðuefni, eða hvort augljóst væri að ég hefði ekki farið og því væri ráð að reyna að bjarga villuráfandi sauði.

Ætli seinni valkosturinn sé ekki líklegri.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...