14. desember 2011

Silfur-hvað?

Tuttugu og fimm ár eru langur tími.

Aldarfjórðungur.

Ríflega helmingur af minni ævi. Svona nokkurn veginn 53%.

Silfur, segja þeir sem þekkja til.

Silfurbrúðkaup.

Já, í dag eru 25 ár síðan við Gulla giftumst.

Mér finnst nú ekkert svo rosalega langt síðan. Einhvern veginn finnst mér að talningin hljóti eitthvað að vera vitlaus hjá okkur. En svo er víst ekki. 2011 mínus 1986 gera víst 25.

Ég man að einhver spurði okkur í kringum brúðkaupsdaginn: Og hvenær kemur svo barnið?

Gulla hlyti auðvitað að vera ófrísk úr því við vorum að taka upp á þessu. Ég 21 árs, alveg að verða 22 og hún 19 ára. Nei, ekkert barn á leiðinni. Það kom ríflega einu og hálfu ári síðar.

Skondið er til þess að hugsa að eldri dóttirin er í dag 23 ára og sú yngri 19. Á þeim aldri sem við vorum þegar við giftum okkur.

Eftir því sem ég best veit eru þær ekkert á þeim buxunum að gifta sig á næstunni.

En það er skemmtilegt að kíkja á moggann frá 14. desember 1986 og sjá hvað var helst í fréttum (á bls. 2, því þá voru bara erlendar fréttir á forsíðu):
  • Mæðrastyrksnefnd: Ástandið síst betra en í fyrra
  • Mælingar sýna fleiri gos undir jöklinum
  • Fjárlög samþykkt til þriðju umræðu
Hefur nokkuð breyst?

Veit það svei mér þá ekki. Þetta gæti vel verið úr mogganum í dag.

Stundum velti ég því fyrir mér hvernig okkur hefur tekist að vera gift svona lengi. Ekki síst þegar ég les fréttir af hjónaböndum fræga fólksins, sem oftar en ekki telja endingartíma í mánuðum. Ég veit svei mér ekki svarið. En mér virðist þó að oftast líði okkur Gullu vel saman. Þyki gott að vita af hvort öðru nálægt.

Hvað ætlum við svo að gera til hátíðarbrigða?

Ekkert voðalega mikið. Við skellum okkur líklega út að borða í kvöld, en lítið annað er planað. Guttinn verður auðvitað í eftirdragi. Ekki þýðir að skilja hann eftir útundan. Við höfum sjaldan haldið mikið upp á daginn. Fórum á súperflott og rándýrt gistihús í eyðimörkinni í Namibíu fyrir fimm árum. Ætli við gerum ekki eitthvað flott á perlubrúðkaupinu.

En dæturnar tvær eru á leiðinni til okkar, sitja núna á flugvelli í Lundúnum, og það verður besta gjöfin að öll fjölskyldan verður saman um jólin.

Úff, manni verður nú hálfóglatt af væmninni...

En, þetta er samt satt.

Gulla, skál fyrir 25 árunum okkar! Megi þau verða mörg til viðbótar.

5 ummæli:

davíð sagði...

Til hamingju með þetta. Maður skammast sín hálfpartinn að vera alveg á hinum vængnum með þetta.

Allt niðrum sig eins og einhver myndi segja.

Björn Friðgeir sagði...

Til hamingju með daginn!

Tommi sagði...

Innilega til hamingju með þetta bæði tvö.

Nafnlaus sagði...

til hamingju með daginn elsku þið bæði:) Ég og minn heittelskaði erum ekki svo mörgum árum á eftir ykkur (mínir útreikningar segja 7 ár) kossar og knús frá okkur í Vennesla

Jóhanna sagði...

Til hamingju með þennan stóra dag.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...