10. desember 2011

Gripinn ,,glóðvolgur''

Lentur í Jóhannesarborg á leiðinni til Lílongve. Þarf að gista hér eina nótt, því flug til Lílongve eru ekki mörg á hverjum degi.

Ég þarf því formlega að fara inn í Suður-Afríku, með tilheyrandi innflytjendaeftirliti. Yfirleitt gengur það smurt fyrir sig. Einn af kostum þess að vera með íslenskt vegabréf er að hægt er að fara til mjög margra landa án vegabréfsáritunar.

Rétt áður en kemur að manni, þá þarf maður að horfa í myndavél sem á einhvern snilldarhátt mælir hitastig húðarinnar á viðkomandi. Komu þeir með þetta fyrir nokkrum árum þegar allir voru skíthræddir við svína- eða fuglaflensu. Þetta tekur augnablik og fólk rennur framhjá þessari myndavél. Fær grænt ljós í bókstaflegri merkingu. Þeir sem sjá um myndavélina virðast frekar leiðir. Enda lítið að gerast.

Þar til kom að mér!

Fór ekki bévítans vélin að blikka rauðu ljósi. Ég bölvaði klaufaskapnum í sjálfum mér að geta ekki staðið kjurr, en það þarf maður að gera. Reyni því að vera grafkyrr, en alltaf blikkar rautt.

Nú voru góð ráð dýr. Átti ég að vera svellkaldur og labba til næsta innflytjendaeftirlitsfulltrúa? Í því sem svona hugsanir þjóta um kollinn á mér, þá lifnar allt í einu yfir verðinum sem glápir á myndavélina. Hann kallar á stúlku sem kemur til mín, segir mér að véli mæli líkamshita minn 37,85 gráður. Því þurfi ég að tala við hjúkkuna á vakt.

Fyrst fékk ég þau að fá stimpilinn í vegabréfið, en síðan var ég leiddur eins og glæpamaður í öfuga átt við alla hina.

Skemmtilegt.

Ég hafði þá tilfinningu að allir væru að stinga saman nefjum og velta því fyrir sér hvað þessi vafasamlega útlítandi náungi hefði til saka unnið.

Ég hitti hjúkkuna. Sagði henni að ég hefði verið í rótarfyllingu hjá tannlækninum mínum í Windhoek fyrr í dag. Sem var satt.

Þess vegna ertu svona bólginn á vinstri kinninni? spurði hún.

Sjálfsagt leit ég út fyrir að hafa lent í slagsmálum og með nokkra daga skeggbrodda til að kóróna allt.

Hjúkkan stakk hitamæli í eyrað á mér. 37,5 var útkoman þar.


Svo þakkaði hún fyrir og bað mig að fara vel með mig í kvöld.

Það ætla ég að gera.

1 ummæli:

Jóhanna sagði...

Bwahahhahaaaa.... spurning að reyna að vinnu sem hjúkka á þessum flugvelli :)

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...