Því að flytja á nýjan stað fylgir að sjálfsögðu að leita sér nýrra kunningja. Fjölskyldan, þótt skemmtileg sé, getur ekki endalaust setið ein heima með sjálfri sér. Síðasta laugardagskvöld buðum við því tveimur fjölskyldum í grillmat, en þarna var um að ræða skólafélaga Rúnars Atla og foreldra þeirra.
Kvöldið tókst vel. Ég grillaði lambalæri í heilu og kom það vel út. Malavískt lambalæri. Það var aðeins minna en ég er vanur að heiman. Rétt rúm tvö kíló að þyngd með beini og öllu. Langaði að prófa eitthvað nýtt og fann á netinu uppskrift að kryddblöndu fyrir lambalæri og einnig uppskrift að kaldri grískri sósu sem á að vera æðisleg með lambi. Sem hún var. Nýjungin fyrir okkur Gullu var að nota heilan helling af hvítlauk. Við erum yfirleitt frekar passasöm á hann, en ekki í þetta sinn. Ég saxaði niður endalausan fjölda af hvítlauksrifjum. Svo var hægt að nýta kryddjurtagarðinn hennar Gullu. Minta, kóríander, rósmarín og basílikum eru þar m.a. Ég er enn að átta mig á þessari snilld að geta labbað út í garð og náð í kryddjurtir. Alveg frábært.
Auk lærisins buðum við líka upp á tandoori-kjúklingastrimla og grillbrauð. Íslensk skúffukaka var svo í eftirrétt. Því miður var ekki hægt að bjóða upp á þeyttan rjóma með henni, því rjómi fannst hvergi í búðunum hér í síðustu viku.
Maturinn var velheppnaður, þrátt fyrir allan hvítlaukinn. Kannski einmitt vegna hans? Gæti verið.
Önnur fjölskyldan er frá Frakklandi og hin frá Simbabve. Margt fróðlegt var rætt og mikið hlegið. Alltaf er forvitnilegt að heyra reynslusögur fólks frá öðrum löndum. Kannski læt ég einhverjar frásagnir koma síðar. Sumt tekur tíma að melta.
En, þrátt fyrir að koma frá ólíkum löndum og ólíkum menningarheimum þá höfum við flest sama markmiðið. Að búa þannig í haginn fyrir börnin okkar að þau hafi það betra en foreldrarnir. Um þetta snýst líf langflestra sem við kynnumst.
Er það ekki hið besta mál?
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Bara alltaf í Amsterdam
Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...
-
Áðan skruppum við í göngutúr um nágrennið okkar. Ég var búinn að stúdera næstu götur svolítið á kortavef hr. Gúguls og var kominn með áætlun...
-
Rúnar Atli fékk að fara eftir skóla heim til bekkjarbróður síns, Liams. Liam og Rúnar Atli eru virkilega góðir vinir og alltaf mikill spenni...
-
Þá er komið að því að ræða viðhaldið. Nei, nei, hvað er að ykkur? Skammist ykkar. Auðvitað er allt er í fínu hjá okkur Gullu. Ja, a.m.k....
Engin ummæli:
Skrifa ummæli