Þetta var svolítið gaman, fannst mér. Krakkarnir mættu í sínu fínasta pússi í skólann. Áttu að klæða sig sem arkitektar. Það er allur gangur á því hvernig þau - og foreldrarnir - halda að arkitektar líti út. Rúnar Atli fór með málband hangandi í buxnastrengnum og með penna upp úr brjóstvasanum. Hann var nú ekki alveg sannfærður að svona væri klæðnaður arkitekta, en fannst þó sennilegt að málband kæmi sér vel fyrir svoleiðis mann og auðvitað þarf arkitekt að hafa góðan penna.
Hópurinn hans Rúnars Atla. Hann lengst til vinstri, og sjá má pennann í brjóstvasanum og málbandið í buxnastrengnum. Til hægri sést í klemmuspjald skipulagsfulltrúa nokkurs. |
Ekki ætla ég að reyna að þykjast vera hlutlaus, en ég var montinn af verkefni Rúnars Atla. Rígmontinn, þótt ég reyndi að sjálfsögðu að halda andlitinu.
Hann er hugmyndafrjór - hugsar út fyrir boxið, eins og stundum er sagt. Það er greinilegt.
Flest verkefnin voru frekar venjuleg. Þ.e. byggingarnar voru hefðbundnar. T.d. íbúðarhús, skólar, kirkjur og þar fram eftir götunum. Ekki misskilja mig. Teikningarnar voru virkilega flottar og krakkarnir höfðu útpælt þetta allt saman. Hallandi þök til að verjast snjóþyngslum! Hverjum dettur svoleiðis í hug í Malaví?
En, byggingin hans Rúnars Atla var ekki venjulega bygging.
Nei, vélmennamiðstöð!
Hann hafði teiknað rannsóknarstofu þar sem vélmenni skipuðu stóran sess.
Og af hverju? var hann spurður.
Jú, svaraði hann, ég ætla að verða vísindamaður og þá þarf vélmennamiðstöð.
Þá vitum við það.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli