9. janúar 2008

Endurnar á tjörninni

Í síðustu viku þurftum við Rúnar Atli að finna leið til að eyða góðum hálftíma. Vorum við í nágrenni tjarnarinnar og skruppum því að kíkja á endurnar... og gæsirnar... og svanina... og dúfurnar... og mávana. Þótti okkur illt að hafa ekki brauðmola því greinilegt var að fiðruðu vinir okkar bjuggust við einhverju frá okkur.

Sórum við því heit að snúa aftur.

Í fyrradag stóðum við við heiti okkar. Mættum við á nýjan leik. Ásamt Tinnu Rut, sem þó ákvað að sitja í bílnum frekar en að sjást við barnalegar athafnir. Vorum við vopnaðir poka með nokkura daga gömlum brauðsneiðum. Nú urðu íbúar tjarnarinnar ekki fyrir vonbrigðum og hópuðust að okkur. Rúnar Atli átti í mestu vandræðum með að koma brauðmolunum til þeirra sem honum þótti að ættu að fá mola. Hann, nefnilega, vorkenndi sumum fuglunum sem honum þótti verða undir í baráttunni um molana. Mávarnir voru aðgangsharðir en okkur tókst að koma slatta af molum til þeirra sem okkur fannst eiga skilið að fá bita.

Þegar öllu er á botninn hvolft þá var þetta bara nokkuð skemmtileg lífsreynsla og ég er ánægður að hafa náð að gera þetta með syninum.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...