13. desember 2007

Ástkær fósturjörð

Við erum komin í Æsufellið. Loksins leit ég augum íbúðina sem ég er búinn að eiga helming í síðan á miðju ári. Er bara sáttur. Sit núna við borðstofuborðið og horfi út yfir Reykjavíkina. Ægifagurt útsýni.

Ýmislegt þarf að gera í þessari íbúð, en þó ekkert sem er bráðnauðsynlegt í skyndi. Helst að eldhúsið sé áberandi slappast.

Ekki var verra að fá svo jólasnjó. Skaust með Tinnu Rut í Kringluna áðan, þar sem hún hitti vinkonur af Skaganum. Snjónum kyngdi niður. Á leiðinni til baka tók Breiðholtsbrautin töluvert lengri tíma en venjulega útaf sumardekkjabílum sem komust ekki spönn frá rassi. En sem betur fer virðist nóg af jeppakörlum sem fá ánægju af því að bjarga náunganum. Kræsslerinn fór létt með þetta á sínum heilsársdekkjum.

Seinnipartur gærdagsins í Lundúnaborg var frekar tíðindalítill. Við fórum öll fjögur í verslanamiðstöðina og eyddum drúgum tíma þar. Hellingur af fólki. Síðan lagði ég mig í svona tvo tíma. Þreyttur eftir flugferðina. Hraut víst, heyrði ég utanaðmér, en veit ekki hvort ég tek það trúanlegt...

Við Rúnar Atli fórum svo í þriðja verslunarleiðangurinn um kvöldmatarleytið. Hann hefur mikið gaman af peningaplokksbílunum, sem juggast fram og til baka í eina mínútu eða svo.

Síðan var farið að sofa. Fínt hótelherbergi, og ef einhverjir þurfa að gista nálægt Gatwick flugvellinum, þá getum við alveg mælt með Arora hótelinu. Svolítið dýrt, en allt pottþétt.

Já, við fórum að sofa, en síðan vakna ég við eitthvað brambolt í henni Gullu. Hún var eitthvað mikið að stússast og var búin að kveikja öll ljós. Ég lít á klukkuna og kalla í frúna: „Þú veist að klukkan er einungis að nálgast þrjú um miðja nótt?“

Löng þögn...

„Ertu viss? Er ekki klukkan að verða fimm?“

Gulla hafði sem sagt ekki áttað sig á því að farsíminn hennar var enn stilltur á Namibíutíma...

Við þurftum að vakna klukkan fimm til að ná út á völl í tíma. Henni fannst því vel til fundið þegar hún vaknaði tuttugu míntútum fyrr - skv. sinni klukku - að fara að mála sig. Þ.a. klukkan þrjú var hún orðin stórglæsileg og til í allt.

Nema að sofna aftur. Hver skyldi fara að sofa nýmáluð?

Já, ýmislegt skondið á sér stað í okkar ofurvenjulega lífi.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...