8. desember 2007

Íslandsför

Nú styttist í Íslandsförina. Rúnar Atli hefur undanfarnar vikur samviskusamlega komið með mér út á flugvöll að keyra hina ýmsu Íslendinga sem á ferðinni hafa verið. Honum er þó farið að lengja í að fara sjálfur, en nú fer að koma að því.

Við yfirgefum Namibíu kl. 20:40 að staðartíma á þriðjudag og lendum í Lundúnum um fimm að morgni næsta dags. Ætlum að stoppa þann daginn í heimsborginni og förum síðan til Íslands á fimmtudagsmorgninum. Áætlaður lendingartími í Keflavíkinni er 11:20.

Á Fróni verðum við í u.þ.b. fjórar vikur. Leggjum af stað til baka 11. janúar.

Helsti viðburður ferðarinnar er stúdentaútskrift Dagmarar Ýrar. Hinn 21. desember verður hún stúdent. Búið er að panta tíma hjá ljósmyndara þennan morguninn og síðan er sjálf útskriftin klukkan tvö. Stefnt er að smákaffisamsæti um kvöldið, en skipulagning þess bíður heimkomunnar.

Við höfum verið að kíkja á leikhúsferðarmöguleika. Erum að spá í að panta okkur miða á Gosa og fara í leikhús rétt eftir áramótin. Alltaf gaman að gera sér glaðan dag og fara á leikrit.

Síðan verður líklega merkileg upplifun að koma í nýtt húsnæði, sem ég hef aldrei séð áður, og allt manns hafurtask komið á staðinn á undan manni. Skyldi manni standa einhverslags áfallahjálp til boða?

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...