23. desember 2007

Nýstúdentinn!

Föstudagurinn var „bissí“ dagur hér á bæ. Eldsnemma farið á fætur, en klukkan tíu var mæting á Ljósmyndastofu Gunnar Ingimarssonar í Suðurveri. Þar voru teknar stúdentamyndir og síðan var smásyrpa í lokin af börnunum öllum þremur. Frá Gunnari hafa alltaf komið pottþéttar myndir og eigum við ekki von á öðru núna frekar en áður. Sumir biðu stilltir og þægir eftir myndatökunni...


Vatnsgreiddur og sykursætur


Að þessu loknu var arkað heim til að undirbúa veisluna. Ýmislegt sem gera þurfti, en planið okkar stóðst nú nokkuð vel og ekkert meiriháttar stress í gangi.

Þannig.

Síðan nálgaðist klukkan tvö, en þá hófst útskriftarathöfnin í Háskólabíói. Eitthvað var ég ekki alveg með tímann á hreinu, því allt í einu kom upp úr kafinu að klukkuna vantaði 25 mínútur í og ég ekki kominn í jakkafötin. Tókum við nú út stressskammtinn, en náðum í bíóið svona sjö mínútur fyrir tvö, Dagmar Ýr segir örugglega að klukkuna hafi vantað tvær mínútur í...

Athöfnin gekk vel fyrir sig. Ræður haldnar og heyrðum m.a. sögu um krókódíla og tvær ástralskar systur. Ég áttaði mig nú ekki alveg á skilaboðum þeirrar sögu. Enda langt síðan ég varð stúdent.

En útskriftin gekk að öðru leyti mjög vel og Dagmar Ýr fékk hvíta kollinn, eins og sést.

Dagmar Ýr í hópi samstúdenta


Nýstúdentinn


Svo var farið heim á leið. Sú ferð tók nú tímann sinn. Reykavík var hreinlega í lamasessi, því allir sem vettlingi gátu valdið virtust hafa ákveðið að skreppa í bíltúr. Tók okkur góðan klukkutíma að komast upp í Æsufellið, en það hafðist að lokum.

Um kvöldið var síðan veislan haldin. Rúmlega 30 manns mættu á svæðið. Ýmsar kræsingar voru á borðum og tókst allt meiriháttar vel. Gaman að fá tækifæri til að halda veislu þegar komið er til Íslands. Sumt fólk þarna hafði ég ekki hitt í þónokkuð mörg ár.

Nýstúdentinn tók síðan upp gjafirnar sínar og allir fóru ánægðir að sofa.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...