24. desember 2007

Jólatréð

Þannig er að frá 1991 höfum við ætíð skreytt jólatréð okkar viku fyrir jól. Sem næst afmælisdeginum mínum, sem sagt.

Eitthvað klikkaði þetta hjá okkur í ár, en við keyptum ekki tré fyrr en 18. des. og skreyttum ekki fyrr en næsta dag. Svona svipað og með hangikjötssuðuna í gær, við virðumst bara vera svo afslöppuð að hefðirnar fá að fjúka...

En, tréð var keypt í heimabyggð, í Garðheimum. Það virkaði nú frekar temmilegt í skemmunni hjá þeim, svona tæplega tveggja metra hátt og nokkuð þétt og fínt.

Svo kom tréð heim...

Greinilegt var að mér hafði hlaupið kapp í kinn við valið. Ég ætti líklega að taka fram að ég sá einn um valið í ár. Ja, spurði reyndar Rúnar Atla hvort þetta tré væri ekki flott og fékk samsinni við því. Veit ekki hvort það dregur eitthvað úr ábyrgð minni.

En í sínu tilvonandi umhverfi var tréð kannski svona obbolítið smáræðis ofurlítið í stærra lagi. Hæðin var í lagi, en fullbomsamikið var tréð. Á tilætluðum stað gerði tréð að verkum að erfitt var að komast inn í eldhúsið.

Þ.a. nú þurfti að grisja. Engar fundust trjáklippurnar. Jú, reyndar fann ég klippur sem ég notaði á aspirnar á Stillholtinu, en þær eru með metralöngu skafti og því ekki vel til þess fallnar að snyrta og snurfusa jólatré innandyra. Því var aftur brunað í Garðheima og fjárfest í litlum handklippum. Svo var farið að grisja.

Smátt og smátt tók tréð á sig mynd, en hrúgan af greinaafklippum á gólfinu stækkaði og stækkaði. Að lokum mátti varla á milli sjá hvort fleiri grenigreinar voru á trénu eða á gólfinu. Afskurðurinn fyllti einn svartan ruslapoka leikandi létt.

En að þessari snyrtingu lokinni var tréð orðið fantafínt og tekið til við að skreyta. Sumir voru í frekar óhefðbundnum klæðnaði við verkið, en áhuginn og einbeitingin skein engu að síður úr andlitinu.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...