8. desember 2007

Sjóræningjar

Í dag fór Rúnar Atli í sitt fyrsta afmælispartí, svona alvörupartí. Besti vinur hans af leikskólanum, Sanjeev, varð þriggja ára 3. des. og hélt upp á það í morgun. Sanjeev er bandaríkjamaður af indverskum ættum og eru þeir Rúnar Atli óaðskiljanlegir á leikskólanum. Alveg lygilegt að heyra þá tala saman, því Sanjeev slettir á íslensku og Rúnar Atli slettir víst á Hindí. „Let's do svona,“ er eitt dæmi.

Nóg um það. Afmælið hófst klukkan níu og var búið um hádegi. Ekki þýðir að hafa veislur um eftirmiðdaginn vegna hita, svona ef þið eruð að velta tímasetningunni fyrir ykkur. Eins og sönnum Könum sæmir var búið að skipuleggja partíið út í ystu æsar. Sjóræningjaþema, og voru margir skemmtilegir leikir á dagskránni. Skipulagið var þvílíkt að í pabbanum heyrðist: „Tíu mínútur í tertuskurð.“ Ekta amerískt.

En, það verður nú að viðurkennast að partíið tókst virkilega vel og allir skemmtu sér konunglega, hvort sem um var að ræða börn eða fullorðna.

Fyrsti leikurinn snerist um að gefa hákarli að éta. Sést hér Rúnar Atli í maga hins ógnvænlega hákarls.


Ekki var nóg með að vera étinn af hákarli, heldur þurftu menn líka að ganga plankann. Eins og sést var Rúnari Atla um og ó, en lét sig hafa það.


Alvöru sjóræningjar þurfa húðflúr og hér er Rúnar Atli kominn með eitt slíkt á upphandlegginn. Hann þarf þó aðeins að æfa sig í vöðvahnyklingum, en það kemur allt.


Eins og áður sagði skemmtu allir sér vel, en nú er spurning hvort við Íslendingarnir þurfum ekki að fara að plana partíð sem halda þarf í ágúst á næsta ári...

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...