25. desember 2007

Aðfangadagskvöld

Þetta árið eins og önnur ár þá runnu jólin í garð kl. sex að kvöldi 24. desember. Nokkur spenningur ríkti fram eftir degi, eins og eðlilegt er. Hamborgarahryggurinn fór í pottinn um fjögurleytið og smátt og smátt barst ilmurinn af honum um alla íbúð.

Til siðs er að taka mynd af matarborðinu áður en sest er við það. Brá svo við í ár að einn fjölskyldumeðlimur var svo svangur að hann lenti með á myndinni. Var víst lítið búinn að borða yfir daginn fyrir spenningi og nennti því ekkert að bíða eftir hinum.


Maturinn brást ekki þessi jólin. Kjötið bókstaflega bráðnaði í munnum okkar. Eins og oft áður var erfitt að kunna sér magamál, þótt nokkur pressa væri frá börnunum að drífa þetta nú af og setjast inn í stofu.

Auðvitað beið uppvaskið þó. Nú brá svo við að dæturnar tvær tóku verkið að sér. Man ég bara ekki eftir sambærilegum atburði fyrr og var hann því festur á filmu. Einhverja sönnun verður að hafa. Kannski er hér vísir að nýrri hefð, hver veit?


Ekki má bregða út af vananum og voru teknar myndir af börnunum við jólatréð áður en rifið var utan af pökkum. Fylgja hér tvær þess háttar myndir.



Loksins, loksins var farið að opna pakka. Rúnar Atli fékk það mikilvæga hlutverk að velja pakka undan trénu. Hann afhenti þá síðan Tinnu Rut sem las á merkimiðann. Síðan tók Rúnar Atli aftur við pakkanum og færði þeim sem pakkann átti. Fyrirkomulagið gekk nokkuð snurðulaust fyrir sig, nema þegar Rúnar Atli var svo önnum kafinn við nýju gröfurnar sínar að hann hreinlega mátti ekki vera að þeim hégóma að sækja fleiri pakka.

Tók eitthvað yfir tvo tíma að opna alla pakka. Kunnum við öllum þeim sem gáfu okkur gjafir hinar bestu þakkir fyrir. Vonandi áttu allir okkar vinir jafnnotalegt aðfangadagskvöld og við.

Í lokin fylgir hér mynd af gleði Tinnu Rutar þegar hún opnaði pakka frá systur sinni. Með innihaldi pakkans mun gamall draumur rætast, gat í naflann!



Gleðileg jól öllsömul!

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...