Eitthvað hefur gengið illa hjá mér að „dagbókast“ undanfarið. Datt mér því í hug að skella saman smápistli um hitt og þetta, nú þar sem ég sit við eldhúsborðið og hlusta á rás 2 úr tölvunni.
Húsmæðraorlof
Í gær lagði hún Gulla mín land undir fór. Fór ásamt Arndísi, sem er starfsnemi á skrifstofunni hjá mér, til Höfðaborgar (Keip tán fyrir þá sem dýrka og dá enska tungu). Á eftir fara héðan Júlía táknmálskennari og Eyrún táknmálstúlkur og ætla að reyna að finna Gullu og Arndísi í stóru borginni. Þær ætla að vera þarna fram á sunnudagskvöld, Gulla þó til mánudagsmorguns, og skemmta sér vel og mikið.
Er mikið búið að hlakka til þessarar ferðar og miklir verslunarleiðangrar skipulagðir. Það vill þannig til að hótelið sem þær gista á er inni í stærstu verslunarmiðstöð í allri heimsálfunni! Hægt víst að labba þar um svo klukkutímum skiptir án þess að fara tvisvar í sömu búðina.
Bleyjumál
Skemmst er frá að segja að hann Rúnar Atli hefur tekið bleyjuleysið með trompi. Eitt og eitt slys hefur gerst, en langt er á milli. Við vorum eins og þeytispjöld með drenginn á salernið um og eftir síðustu helgi, þar til mér var sagt á leikskólanum: „hann segir okkur ekki þegar honum er mál, hann bara fer á klósettið sjálfur!“
Góður með sig að láta foreldrana snúast í kringum afturendann á sér að óþörfu.
Við fórum, öll nema Tinna Rut, á Ratatoille í bíó sl. sunnudag. Pilturinn að sjálfsögðu bleyjulaus. Svo, þremur mínútum fyrir lok myndarinnar kom: „pabbi, þarf að pissa...“ og þar með misstum við af endinum.
Kannski var þetta leikflétta til að komast aftur í bíó á sömu myndina, veit það ekki.
Síminn íslenski
Það fór sem mig grunaði. Strax eftir helgi var miklu betra að tala í smarta símann með íslenska númerinu. Við höfum talað þó nokkuð til Íslands og síðan líka við Dodda í Svíþjóð og Maju í Noregi. Gengur þetta bara mjög vel. Svíþjóð og Noregur eru þó með svolitla töf, en ekkert sem ekki má sætta sig við. Íslandssamtölin ganga bara mjög vel og þegar hugsað er um vegalengdina, þá er þetta alveg glimrandi.
Endilega látið heyra frá ykkur. Fyrir þá sem nenna ekki að fletta í gömlu færsluna, 496 1991 er síminn.
Táknmál
Eins og athugulir lesendur tóku án efa eftir, voru tvær af „húsmæðrunum“ táknmálseitthvað. Eyrún verður hér í mánuð, en Júlía út nóvember. Rætt hefur verið um að taka Íslendingana hér í borginni í táknmálsnámskeið - táknmál 1 - og hófst kennslan á miðvikudaginn var. Mætti hópur fólks heim til okkar og hóf að læra stafrófið á táknmáli og spyrja hvað fólk heitir og eitthvað á þeim nótunum. Eftir um sjötíu mínútna kennslu var ekki laust við að fólk væri farið að finna fyrir verkjum í fingrum og jafnvel smáseiðing af sinaskeiðabólgu.
Síðan var pantaður kínamatur, og auðvitað hélt lærdómurinn áfram. Ýmis orð sem tengjast áfengi voru kirfilega skoðuð og eins orð eins og tískugallabuxur, því ekki veitir af fyrir kráa- og verslunarleiðangurinn í Höfðaborg.
Stendur til að endurtaka leikinn í næstu viku, en ekki er þó vitað hvaða slangur og soraorð hafa lærst í húsmæðraorlofinu.
5. október 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Bara alltaf í Amsterdam
Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...
-
Áðan skruppum við í göngutúr um nágrennið okkar. Ég var búinn að stúdera næstu götur svolítið á kortavef hr. Gúguls og var kominn með áætlun...
-
Rúnar Atli fékk að fara eftir skóla heim til bekkjarbróður síns, Liams. Liam og Rúnar Atli eru virkilega góðir vinir og alltaf mikill spenni...
-
Þá er komið að því að ræða viðhaldið. Nei, nei, hvað er að ykkur? Skammist ykkar. Auðvitað er allt er í fínu hjá okkur Gullu. Ja, a.m.k....
Engin ummæli:
Skrifa ummæli