Úff, það er svo langt síðan ég skrifaði dagbókarfærslu síðast að ég var næstum því búinn að gleyma lykilorðinu til að komast inn að skrifa.
En bara næstum því.
Undanfarnar vikur hafa verið nokkuð strembnar. Ég tók upp á því í annarri viku ágústmánaðar að veikjast. Fékk hita og beinverki og leiðindahósta. Þetta kom ekki á góðum tíma, akkúrat í viku sem ég átti þrjá kvöldverði skipulagða í vinnunni, þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag. Ég hékk því í vinnunni eitthvað fram yfir hádegi, fór síðan heim í bælið og skalf í 2-3 tíma og síðan út að borða. Ég skal alveg viðurkenna að hafa oft verið duglegri að skófla í mig mat á veitingahúsum. Síðan í vikunni á eftir var heljarinnar reisa skipulögð norður í land, heimsækja verkefni og halda fundi með hinum og þessum. Síðan átti að nýta ferðina til smátúristaferðar og leyfa Dagmar Ýr og Þórdísi vinkonu hennar að sjá aðrar hliðar á Namibíu en sjást í Windhoek. Ferðin gekk alveg þokkalega, en heilsan var ekki alveg upp á það besta. Lá í hóstaköstum fram eftir nóttum, en var þó þokkalegur að deginum til. Ekki veit ég hvað margir kílómetrar lágu að baki þegar ferðinni lauk, en við höfum líklega verið kominn vel á annan hring á hringvegi okkar Íslendinga. Vegirnir voru nú frekar misjafnir og fylgir hér mynd af einum vegi sem við þurftum að fara, ef veg skyldi kalla.
Við fórum í Etoshaþjóðgarðinn á bakaleiðinni. Tók okkur sex og hálfan tíma að komast í gegnum hann, en við sáum líka mikið af dýrum í ferðinni. Fíla og gíraffa og milljón sebrahesta og allskonar antílópur. Við sjáum líka nokkur ljón við tvö vatnsból, en þau hef ég aldrei séð áður í þvílíku návígi. Hér fylgja myndir af gíraffa og fílum.
Mér fannst þetta sjónarhorn af fílunum nokkuð skemmtilegt. Hálfgerður perraháttur kannski að taka myndir af afturendunum þeirra. En ég get fullvissað ykkur um að ég á helling af myndum af framendunum líka...
Gíraffinn þessi leit með þessum líka ótrúlega yfirlætissvip á okkur. Eins og honum finndist algjör óþarfi að við værum að trufla hann í matmálstímanum. Hann hafði sjálfsagt rétt fyrir sér.
Svo er Dagmar Ýr kominn heim til Fróns eftir að eyða sumrinu hér í Namibíu. Hún stóð sig alveg ágætlega í fjarnáminu, en hún lauk fjórum námskeiðum í sumar. Nú er hún byrjuð í Fjölbraut í Ármúla, en ég hef nú ekki heyrt hvernig henni líkar. En um jólin útskrifast hún sem stúdent, gaman, gaman.
Hér er ein mynd af henni þar sem himbakona nokkur er að leyfa henni að fá smáprufu af kreminu sem þær himbakonur bera á sig. Það er ótrúlega sterkur litur í þessu kremi. Ég hugsa að ef Dagmar bæri svona á sig alla, þá væri enginn litamunur á henni og himbakonunum, þrátt fyrir að þær séu bikasvartar undir kreminu en Dagmar hvít.
En ferðalagið gekk almennt séð vel, þrátt fyrir hóstaköst. Þær Dagmar og Þórdís virtust ánægðar og sáu margt sem kom þeim spánskt fyrir sjónir.
Síðan á morgun fer hún Gulla heim til að flytja af Stillholtinu í Æsufellið. Stendur til að hafa forafmælisveislu á morgun fyrir Rúnar Atla og er ég núna að baka tvær tertur. Gulla verður heima í um þrjár vikur, en eftir viku fáum við lyklana að Æsufellinu. Þykist ég nokkuð viss um að Gullu þætti ekki verra að fá nokkra sjálfboðaliða til að hjálpa sér með flutningana.
Ég læt þetta duga í bili. Heilsan er öll orðin skárri, síðasta nótt var sú fyrsta í langan tíma sem ég vakna ekki upp í hóstakasti.
Batnandi manni er best að lifa...
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Bara alltaf í Amsterdam
Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...
-
Áðan skruppum við í göngutúr um nágrennið okkar. Ég var búinn að stúdera næstu götur svolítið á kortavef hr. Gúguls og var kominn með áætlun...
-
Rúnar Atli fékk að fara eftir skóla heim til bekkjarbróður síns, Liams. Liam og Rúnar Atli eru virkilega góðir vinir og alltaf mikill spenni...
-
Þá er komið að því að ræða viðhaldið. Nei, nei, hvað er að ykkur? Skammist ykkar. Auðvitað er allt er í fínu hjá okkur Gullu. Ja, a.m.k....
Engin ummæli:
Skrifa ummæli