Við Rúnar Atli skutumst í laugina í morgun á meðan Gulla stóð í ströngu í uppvaskinu. Stórveisla var jú hér í gær. Um 40 manns mættu í Æsufellið til að samfagna Tinnu Rut, en hún var jú að halda upp á útskrift úr framhaldsskóla. Einnig var henni óskað velfarnaðar í komandi áskorunum á norðurslóðum Kanada.
Við Gulla hófum kökubakstur tveimur dögum fyrir veislu og svo kom mamma sterk inn á endasprettinum með brauðtertur. Flatkökur voru smurðar og pönnsur bakaðar. Enda svignuðu borð undan veisluföngum. Tinna Rut stendur hér við kræsingarnar rétt áður en atgangurinn hófst.

Tinna Rut stóð sig eins og herforingi, enda glæsileg stúlka.

Eins og gengur er oft misjafn sauður í mörgu fé. Hér eru tveir af þeim öfugsnúnustu sem mættu í gær:

Við Gulla vorum mjög sátt með veisluna. Þurfum þó að fjárfesta í nokkrum klappstólum til viðbótar til að fullkomnun sé náð. Sjáum alveg fyrir okkur að hægt sé að halda 50 manna boð í Æsufellinu. Enda er farið að skipuleggja þau næstu. Eftir tvö ár eigum við 25 ára brúðkaupsafmæli - ótrúlegt afrek hjá jafn ungu fólki - og eftir fimm ár verð ég fimmtugur. Það er náttúrulega súrrealískt ótrúlegt.
En merkiði í dagbókina, 14. des. 2011, og 17. des. 2014.
1 ummæli:
Takk fyrir mig í gær... mjög gaman að koma þótt stoppið hefði verið stutt..
Skrifa ummæli