4. júní 2011

Stuttir fætur en öflugir

Ég þurfti að skreppa í Laugardalinn í dag. Þetta var fyrsti dagur í fríi hjá mér, þ.a. við Rúnar Atli vorum einir heima. Báðir í fríi. Því ákváðum við að hjóla saman niður í Laugardal og til baka aftur. Enda nægur tími sem við höfðum.

Er skemmst frá því að segja að ferðin gekk vel. Ég þurfti að ná niðureftir fyrir ákveðinn tíma, þ.a. á leiðinni vesturúr var bara hjólað. Mikið af leiðinni þangað er jú undan brekku. En á leiðinni til baka voru engin tímamörk. Við tókum lífinu því með ró og nutum þess að ferðast á hjólunum okkar.

Fyrsti stans var við gömlu laugarnar, þar sem konur í gamla daga þvoðu þvotta. Skelfilegt puð sem þetta hefur verið. Aðstaðan þarna er fín og skemmtileg uppsetning á fræðsluefninu og ljósmyndunum sem eru þarna. Þegar við komum var eldra fólk þarna frá Danmörku og þeim fannst mikið til koma.


Síðan fórum við í Ísbúðina í Álfheimum og fengum okkur ís - hvað annað? Svo lá leiðin í Húsasmiðjuna, en mig vantaði hurðarhún og læsingu. Svo smeygðum við okkur undir Ártúnsbrekkuna og vorum þar með komnir í Elliðaárdalinn okkar margumrædda. Við vorum orðnir svangir þegar hér var komið sögu og fórum á kaffihús í Mjóddinni. Þá var stutt eftir og guttinn fór létt með brekkuna upp í Æsufellið.

Mér reiknast til að ferðalagið okkar hafi náð 15,3 km og verið um fjóra tíma með áningum. Nokkuð gott finnst mér.

En Rúnar Atli lét sér það ekki duga. Hálftíma eftir að við komum heim var hann mættur á fótboltaæfingu. Sú stóð yfir í klukkutíma.

Síðan eftir kvöldmat hjóluðum við niður í Eyjabakkann, en þangað áttum við erindi. Svo var hjólað til baka heim.

Kraftur í mínum manni.

1 ummæli:

Jóhannan sagði...

Svo ef þið bregðið ykkur vestur á firði þá er ég með hjólaleigu i súgandafirði og eru margar skemmtilegar leiðir í villtri nátturu í boði fyrir hjólagarpa :=)

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...