30. janúar 2016

Dellurnar manns

Maður er víst smádellukarl. Ég held ég geti ekki neitað því, án þess að tapa trúverðugleika. Og dellum fylgja græjur og græjukaup. Græjulaus della væri glórulaus. 
 
Mínar dellur undanfarið hafa verið hjólreiðar og köfun. Og maður minn eru til græjur fyrir þessar tvær, já, það held ég nú. 
 
Um áramótin bættist í köfunargræjusafnið. Mig nefnilega langar að taka myndir neðansjávar. Ókei, líklega er ég ekki neðansjávar ofan i Malaví-vatni, en þið vitið hvað ég meina. 
 
Ég hef stúderað svona ljósmyndun í nokkurn tíma og komst að þeirri niðurstöðu að skynsamlegt væri að kaupa venjulega, en góða, myndavél og köfunarhús fyrir hana. Köfunarhús leyfa manni að fara með myndavélin niður á 60 metra dýpi og taka þar ljósmyndir alveg eins og mann lystir. Þar sem mín köfunarréttindi leyfa mér að kafa niður á 40 metra, þá dugar mér svona hús. 
 
Ég hef nú annars staðar sagt frá ævintýrinu við myndavélakaupin og endurtek það ekki hér. Skemmst er frá að segja að ég keypti litla vél, Canon SX710HS og fann svo verslun í S-Afríku sem hefur umboð fyrir köfunarhús og var til í að senda til Malaví. En það er ekki gefið að menn nenni að standa í því. 
 
Ég er semsagt búinn að eignast þessar græjur. 
 
 
Í morgun var svo komið að því að prófa. Kafaði tvisvar í Malaví-vatni og tók slatta af myndum. Var búinn að átta mig á að það er meira en að segja það að taka góðar myndir neðansjávar. Sú var raunin. 
 
Ég náði þó nokkrum sæmilegum myndum
 
 
 
 
Svo dunda menn sér við að flikka upp á svona myndir á tölvunum sínum. Ég á svoleiðis alveg eftir. 
 
Ætli ég þurfi ekki að kaupa 27 tommu iMac fyrir það?
 
Þessi gaur elti mig svo
 
 
 

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...