26. mars 2016

Sansíbar, dagur 2

Nú um hádegisbil á öðrum degi á Sansíbar, sit ég á hótelverönd, sem stundum er þrjá metra frá Indlandshafi, en núna um 20 metra frá hafinu. Ég horfi hér yfir ströndina og hafið og er kominn í enn eina Afríkuparadísina. Ríflega 30 gráðu hiti, ímynda ég mér, en strekkingsgola af hafinu lætur manni líða vel. Yfir mér er stór trjákróna sem heldur sólargeislunum frá.

Ah, ekki slæmt útsýni

Við lögðum af stað á föstudaginn langa, þótt mér finndist enn skírdagur. Flugvélin tók nefnilega á loft frá Malaví klukkan hálffjögur að morgni föstudagsins. Við þurftum því að legga af stað að heiman skömmu fyrir eitt að morgninum. Því fannst mér enn vera gærdagurinn…

Ferðalagið var frásagnarlítið. Við flugum til Næróbí í Keníu, sem er um tveggja tíma flug. Þar biðum við síðan í um einn og hálfan tíma þar til næsta vél fór í loftið. Um klukkustund síðar lentum við á flugvellinum á Sansíbar. Þar var smástapp til að byrja með útaf bólusetningum, en allt leystist það nú. Hins vegar fór í verra að töskurnar okkar fundust ekki. Eitthvað virðist hafa klikkað með malavískan farangur, því það var þarna annað fólk frá Lílongve sem var í sömu vandræðum. Sumir aðrir fengu þó sínar töskur.

„Ekkert mál,“ vorum við fullvissuð um. „Næsta vél kemur um níu í kvöld og í fyrramálið fáið þið töskurnar á hótelið ykkar.“ Vandamálið mitt var að köfunarferð var á dagskrá „í fyrramálið“ og sá ég í hendi mér að töskurnar, sem í var slatti af köfunargræjum, yrðu ekki komnar nógu snemma. Það var síðan ekkert mál að flytja köfunina til um einn dag. Þ.a. á páskadag mun ég kafa í sjó í fyrsta sinn.

En, hitinn á Sansíbar, maður minn! Rétt áður en við lentum var flugstjórinn eitthvað að kvabba í hátalarakerfið. Eins og oft, heyrðist ekki vel hvað hann sagði, en okkur Gullu heyrðist báðum að hann segði hitann um 30 stig. Við litum hvort á annað: 30 gráður - klukkan níu að morgni?? Okkur hlaut að hafa misheyrst.

En þegar við komum efst í stigann til að ganga úr vélinni, þá urðum við eins og skot í engum vafa um að við heyrðum rétt. Maður hreinlega labbaði á rakan, sjávarsaltangandi hitavegg! Á svona hálfri mínútu var skyrtan mín orðin gegnblaut af svita á bakinu. Svakaleg breyting frá Lílongve, sem er tiltölulega þurr staður þótt oft sé heitt.

Tembo House hótelið
Hótelið okkar er mjög huggulegt. Gömul bygging sem hefur verið haldið vel við. Alveg á ströndinni og mikið líf þeim megin. Hótelið er frekar lítið, byggt utan um garð með þokkalega stórri sundlaug í. Innréttingarnar eru mjög skemmtilegar með allskonar krúsindúllum í kringum glugga og dyr og fullt af flottum gömlum tréhúsgögnum hér og þar um hótelið. Herbergið okkar er á annarri hæð og þarf að fara upp hálfsnúinn tréstiga. Dyraopið á herberginu er svolítið stærra en „venjulegt“ dyraop, en með tveimur hurðum og ef bara önnur er opinn þá þarf ég að skáskjóta mér á milli og draga andann djúpt til að vöðvabúntið í maganum komist óskaddað á milli. En samt ekki of djúpt til að þaninn brjóstkassinn stoppi mig ekki af í dyrunum.

Eða þannig sko.
Sundlaugin. Rúnar Atli að gera eitthvað skrýtið
Fólkið sem býr á Sansíbar er upp til hópa múslímar. Því er ekkert beikon í morgunmat og barinn er áfengislaus. Bæði er reyndar fínt. Ef mann langar í bjór, þá er veitingastaður í næsta húsi sem selur svoleiðis. En mig hefur nú ekki langað í bjór enn.

Beikon eða ekki beikon. Ekki er hægt að kvarta yfir matnum hér. Mikið af sjávarréttum og indverskum mat og vel útilátið á diskana. Hér er mynd af sjávarréttaplatta sem ég fékk mér í gærkvöldi. Mjög góður.

Kolkrabbi, rækjur, smokkfiskur og túnfiskur
 Svo í morgun komu töskurnar. Svona hálftíma eftir að köfunarleiðangurinn sem ég ætlaði í sigldi frá landi. Það var því gott að ég frestaði köfuninni. Mikið var gott að geta skipt um skyrtu!

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...