![]() |
Ah, ekki slæmt útsýni |
Við lögðum af stað á föstudaginn langa, þótt mér finndist enn skírdagur. Flugvélin tók nefnilega á loft frá Malaví klukkan hálffjögur að morgni föstudagsins. Við þurftum því að legga af stað að heiman skömmu fyrir eitt að morgninum. Því fannst mér enn vera gærdagurinn…
Ferðalagið var frásagnarlítið. Við flugum til Næróbí í Keníu, sem er um tveggja tíma flug. Þar biðum við síðan í um einn og hálfan tíma þar til næsta vél fór í loftið. Um klukkustund síðar lentum við á flugvellinum á Sansíbar. Þar var smástapp til að byrja með útaf bólusetningum, en allt leystist það nú. Hins vegar fór í verra að töskurnar okkar fundust ekki. Eitthvað virðist hafa klikkað með malavískan farangur, því það var þarna annað fólk frá Lílongve sem var í sömu vandræðum. Sumir aðrir fengu þó sínar töskur.
„Ekkert mál,“ vorum við fullvissuð um. „Næsta vél kemur um níu í kvöld og í fyrramálið fáið þið töskurnar á hótelið ykkar.“ Vandamálið mitt var að köfunarferð var á dagskrá „í fyrramálið“ og sá ég í hendi mér að töskurnar, sem í var slatti af köfunargræjum, yrðu ekki komnar nógu snemma. Það var síðan ekkert mál að flytja köfunina til um einn dag. Þ.a. á páskadag mun ég kafa í sjó í fyrsta sinn.
En, hitinn á Sansíbar, maður minn! Rétt áður en við lentum var flugstjórinn eitthvað að kvabba í hátalarakerfið. Eins og oft, heyrðist ekki vel hvað hann sagði, en okkur Gullu heyrðist báðum að hann segði hitann um 30 stig. Við litum hvort á annað: 30 gráður - klukkan níu að morgni?? Okkur hlaut að hafa misheyrst.
En þegar við komum efst í stigann til að ganga úr vélinni, þá urðum við eins og skot í engum vafa um að við heyrðum rétt. Maður hreinlega labbaði á rakan, sjávarsaltangandi hitavegg! Á svona hálfri mínútu var skyrtan mín orðin gegnblaut af svita á bakinu. Svakaleg breyting frá Lílongve, sem er tiltölulega þurr staður þótt oft sé heitt.
![]() |
Tembo House hótelið |
Eða þannig sko.
![]() |
Sundlaugin. Rúnar Atli að gera eitthvað skrýtið |
Beikon eða ekki beikon. Ekki er hægt að kvarta yfir matnum hér. Mikið af sjávarréttum og indverskum mat og vel útilátið á diskana. Hér er mynd af sjávarréttaplatta sem ég fékk mér í gærkvöldi. Mjög góður.
![]() |
Kolkrabbi, rækjur, smokkfiskur og túnfiskur |
Engin ummæli:
Skrifa ummæli