31. mars 2016

Meira frá Sansíbar

Nú styttist í lok páskafrísins. Síðasti dagur á Sansíbar í dag, en eldsnemma í fyrramálið fljúgum við heim. Frá Sansíbar til Næróbí og þaðan til Lílongve. Verðum komin þangað skömmu eftir hádegisbil sama dag.

Við Rúnar Atli sitjum á hótelveröndinni með sitt hvora tölvuna. Hann langt kominn með súkkulaðisjeik og ég var að gúffa í mig bananatertusneið. Gulla er í nuddi hinumegin við götuna og líður örugglega vel.

Ég er búinn að kafa sex sinnum í ferðinni og sjá margt forvitnilegt í sjónum. Skemmti mér vel í öllum köfunum. Flestar kafanirnar voru yfir kóralrifum, en ein var niður að skipsflaki sem liggur á tæplega 30 metra dýpi hér fyrir utan Grjótabæ. Sú köfun var síst, því það var ekki mikið að sjá. Reyndar sá ég sæhest í þeirri köfun. Það var skemmtilegt. En djúpkafanir niður á 30 metra verða að hafa góðan tilgang, því þær verða miklu styttri en 15-20 metra kafanir. Bæði því maður notar súrefnið hraðar og síðan getur maður verið stutt á þessu dýpi ef maður vill ekki standa í þrýstingsjöfnunarstoppum á leiðinni upp á yfirborðið.

En ég sá endalausa fiska og kóralla og ég veit ekki hvað og hvað. Skemmst er frá að segja að þessar kafanir hafa ekki dregið úr köfunaráhuganum og -áráttunni.

Síðan höfum við skoðað sitt lítið af hverju hérna. Við fórum í bátsferð út á eyju, sem heitir því heillandi nafni Fangelsiseyjan. Var víst fangelsi þarna einhvern tímann. En það sem er merkilegast á eyjunni er stærðarinnar hópur af risaskjaldbökum sem hafast þarna við innan girðingar. Þessar skjaldbökur eru engin smásmíði eins og sjá má af myndinni.

Rúnar Atli að heilsa upp á eina skjaldböku

Ekki veit ég hvað eru margar skjaldbökur þarna, en ímynda mér á annað hundraðið. Hversu vel þeim líður get ég ekki dæmt um, en tvær áttu reyndar „gleðistund“ á meðan við vorum þarna, legg ekki meira á ykkur.

Sagan drýpur af hverju strái hér á Sansíbar. Hér gerðu Portúgalar landnám fyrir nokkur hundruð árum en voru hraktir í burtu af Aröbum sem stunduðu þrælaverslun hér lengi vel. Sumar byggingarnar eru ótrúlegar og hafa verið stórkostlegar á sínum tíma. Reyndar margar í niðurníðslu. Tréútskurður með ólíkindum finnst mér.




Þetta var víst spítali í upphafi



Hótelið okkar er í gamalli byggingu sem var einu sinni bandarísk ræðisskrifstofa. Segir sagan að landkönnuðurinn Stanley sjálfur hafi gist hér einhverju sinni. Og núna við... En þar eru allskonar krúsindúllur í innréttingunum og sum húsgögnin eru mjög falleg og íburðarmikil.

Hér er notalegt að vera. Hitinn þó fullmikill á þessum árstíma, en nú fer regntíminn bráðum í hönd og þá kólnar. Götur hér eru örmjóar og krókóttar og er sagt að það hafi verið gert til að halda hitanum frá. Er ég ekki frá að það virki, en ókosturinn er að götunar verða svolítil skuggahverfi. Fólkið er margbreytilegt útlits og greinilega er þetta mikill suðupottur frá fyrri tímum.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...