31. júlí 2016

Malaví yfirgefið og nýtt ævintýri í uppsiglingu

Í dag fluttumst við frá Malaví. Þar bjuggum við í fimm ár, næstum upp á dag. Okkur leið vel þar og skrýtið til þess að hugsa að maður eigi ekki eftir að koma þar aftur, ja, nema þá bara sem gestur. Næsti áningastaður er Mósambík, nágrannaland Malaví. Núna sit ég á hótelherbergi í Mapútó, höfuðborg Mósambíkur, og punkta niður þessi orð.

Hugmyndin um að flytjast til Mapútó var fyrst stungið að mér seinnipart febrúar og svona mánuði síðar var búið að taka ákvörðun um að slá til og flytjast þangað. Þetta var svolítil stefnubreyting, því í loftinu lá að flytjast til Íslands á árinu. Tók okkur smástund að stilla kollinn inn á þessa breytingu, en það gekk nú að lokum.

Held ég...

Síðustu fjórar vikur hafa verið undarlegar og stressandi. Mikið sem þurfti að klára, selja hluti, koma sumu í gám og senda til Mósambíkur, hreinsa út húsið sem við bjuggum í og sittlítið af hverju. Jú, og svo þurfti að ljúka margskonar hlutum í vinnunni.

Einhvern veginn hafðist þetta allt. Síðustu nóttina í Lílongwe sváfum við á hóteli, enda húsið ekki íbúðarhæft lengur. Um hádegisbilið flugum við síðan af stað áleiðis til Jóhannesarborgar, biðum þar í nokkrar klukkustundir, og þaðan var tæplega klukkustundarflug til Mapútó. Þar vorum við sótt út á flugvöll og mættum á hótelið um tíuleytið áðan. Frekar þreytt.

Svo hefst ný lífsbarátta, nei, ævintýri á morgun.

Meira síðar.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...