8. apríl 2006

Páskaeggjaleit

Í morgun var páskahátíð í leikskólanum. Við Rúnar Atli vöknuðum fyrir
allar aldir til að baka pönnukökur. Í raun var þetta
jómfrúarpönnukökubakstur á nýju pönnunni, og því var ég hræddur að
kökur festust við pönnuna, en svo varð ekki raunin. Pannan reyndist
mjög vel. Gulla var slöpp í morgun, virðist hafa gripið í sig flensu
sem hefur verið að ganga í margar vikur hérna. Mér fannst frekar fáar
pönnukökur koma úr uppskriftinni, þ.a. ég henti múffum í ofninn og
mætti með þær nýbakaðar á hátíðina.

Slatti af krökkum og foreldrum mættu á svæðið. Flestir þýskumælandi, en
þó var slæðingur af fólki sem kann lítið sem ekkert í því máli. Að
loknum morgunmat - pönnsurnar kláruðust - þá var sest í stóran hring og
farið að syngja. Ég tók nú frekar lítinn þátt í því enda voru nær öll
lögin á þýsku. Hins vegar kom mér á óvart hversu mikinn þátt Rúnar Atli
tók í leikjunum í kringum sönginn. Hann klappaði og stappaði og veifaði
og ýmislegt fleira eins og við átti. Hann er ekki búinn að vera þarna
nema í mánuð - þrjá daga í viku - og því varð ég frekar hissa á þessu.
En hann hefur greinilega mjög gaman af þessu.

Síðan var farið í páskaeggjaleit. Höfðu litlar pappírskörfur verið
hengdar upp í tré, í sjónlínu barnanna. Var mikið hlaupið hjá eldri
krökkunum, en þau yngri voru smástund að átta sig á þessum körfum.
Rúnar Atli var voðalega ánægður með körfuna sína. En greinilega var
undarlegt að hafa svona mikið af foreldrum inni á leikskólalóðinni.
Ekki eins og vant er.

En þetta var skemmtilegt. Hefði nú ekki trúað því fyrir svona þremur
árum að ég ætti eftir að ganga í gegnum svona hluti á nýjan leik, en
svona er nú einu sinni lífið.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Tvisvar verður gamall maður barn.
Elli

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...