Í dag var aðeins verslað. Ég er búinn að vera að skoða hjólhesta
undanfarnar vikur. Ja, svona með öðru auganu. Hef langað mikið í
svoleiðis grip, enda fannst okkur Rúnar Atla meiriháttar gaman að renna
eftir götum Akraness á síðasta ári. Þegar við tókum upp úr kössunum sem
við sendum frá Íslandi þá tók hann kipp þegar „hjólastóllinn“ hans kom
í ljós. Vildi fá hjálminn á höfuðið og benti og benti út. En þegar ég
spurði hann hvar hjólið væri, þá kom undrunarsvipur á drenginn og hann
fór að svipast um í kringum sig - ekkert hjól.
Núna sem sagt er búið að bjarga þessu með hjólið. Ég fór í fína
hjólreiðavöruverslun og keypti þetta líka flotta hjól. Reyndar það
ódýrasta í búðinni. Hefði getað fengið enn ódýrara hjól í
stórmarkaðinum, en ákvað að fara í sérverslunina, því þar er fínt
verkstæði og menn til í að herða upp og laga það sem aflaga fer. Þeir
settu „hjólastólinn“ á fyrir mig með brosi á vör. Góð þjónusta á þeim
bænum.
Við feðgarnir fórum í jómfrúarferð eftir hádegið. Heimsóttum Jóhönnu og
Víði sem búa í 2-3 km. fjarlægð. Ein brött brekka á leiðinni var engin
fyrirstaða, enda 24 gírar á gripnum og gírskiptingin eins og hugur
manns.
Svo er bara spurningin hversu duglegir við verðum.
1 ummæli:
Gott hjá ykkur feðgum að vera farnir að hjóla aftur - og gaman að sjá að þú sért farinn að blogga aftur.
kk,
Gulla
Skrifa ummæli