2. apríl 2006

Vetur konungur nálgast

Í morgun byrjaði ruglingur. Ekki þó beint hjá mér, var nefnilega búinn
að undirbúa mig fyrir þessi ósköp. Hvað ég sé að tala um? Jú, nú er
komið haust og veturinn nálgast og þá fara menn að hugsa til þess að
spara rafmagn. Ein leið til þess, er manni sagt, er að breyta
klukkunni. Sem sagt, þegar ég vaknaði í morgun klukkan hálfátta, þá var
klukkan ekki hálfátta, heldur hálfsjö.

Að ýmsu leyti er þessi tímabreyting ekki slæm. T.d. má maður sofa
klukkutímanum lengur á morgnana, en þar sem maður verður sennilega
fljótur að venja sig á að fara klukkutímanum seinna að sofa á kvöldin,
þá skiptir þetta ekki máli nema í einn eða tvo daga. Síðan er jú
bjartara á morgnana heldur en hefur verið og því má segja að auðveldara
verði að koma sér af stað.

Á hinn bóginn er breytingin óþægileg. Þarf jú að finna hverja einustu
klukku á bænum og breyta henni. Einhvern tímann man ég að amerískir
spekingar höfðu lagt á sig að reikna hversu langan tíma tæki að
meðaltali að breyta klukkum og síðan með því að gera ráð fyrir
einhverri meðalklukkueign á hvern ameríkana þá gátu þeir áætlað þau
mannár sem fóru í klukkustillingar út af tímabreytingu. Ekki man ég
lengur töluna en mannárin hlupu á einhverjum hundruðum við hverja
tímabreytingu. Ég er nú aðeins efins um þessa speki, því ég einhvern
veginn held að þessar mínútur sem ég eyddi í að breyta klukkunum í
morgun hefðu varla nýst í neitt annað stórmerkilegt. Hefði kannski náð
að hita mér einn tebolla. Þó, gat stillt klukkurnar á meðan vatnið
hitnaði...

Mesti pirringurinn þó er hjá okkur sem erum áskrifendur að Dstv, en svo
nefnist stafrænt gervihnattasjónvarp frá Suður Afríku. Pirringurinn
stafar af því að í Suður Afríku er klukkunni ekki breytt. Þar á bæ gera
menn eins og á Íslandi, halda sig bara við þann tíma sem er í gangi og
eru ekkert að láta misvitra pólitíkusa segja sér hvað klukkan sé og
hvernig hún eigi að breytast eftir árstíðum. Sjónvarpsvísirinn sem Dstv
sendir okkur, er gefinn út í Suður Afríku og þar er ekkert verið að
kippa sér upp við það þótt Namibía sé að hræra í tímanum. Dagskráin er
einfaldlega sett fram miðað við suður afrískan tíma. Því þarf, í fimm
mánuði ársins, að stilla sig inn á það að í sjónvarpsvísinum þýði
20:00 ekki 20:00, heldur 19:00, o.s.frv. Skiljanlega er pirringur í
gangi vegna þessa, ég held ekki þurfi neitt að útskýra það meir.

En þessi tímabreyting sendir okkur skýr skilaboð um það að nú færist
koma Veturs konungs nær, þ.a. hitinn fer að detta niður í 20-25 gráður
að deginum.

Úff, skyldi maður lifa þetta af...

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...