7. mars 2012

Losnað við höfuðverk - í fjarvinnslu

Tæknin er nú oft alveg ágæt.

Mér er stundum hugsað til munsins milli þess tíma þegar ég fyrst fluttist til útlanda, í ágúst 1991, og nú.

Ekki get ég sagt að mér finnist neitt ótrúlega langt síðan í ágúst 1991. Margt sem á dagana dreif fyrstu vikurnar í Vancouver er mér enn í fersku minni. Eins og gerst hefði í gær. En þegar ég tel árin verð ég að viðurkenna að þau eru orðin svolítið mörg.

Ég man eftir því að fá send upprúlluð dagblöð frá Íslandi. Til að lækka póstburðargjaldið var ýmis óþarfi klipptur úr blöðunum, t.d. auglýsingar. Kannski ritskoðaði Varði blöðin eitthvað meira. Veit það ekki, en alveg gæti það nú verið. Alþýðubandalagsmanninum gæti hafa þótt óþarfi að senda eitthvað sjálfstæðisflokksblaður heimsálfa á milli, ekki satt? En þessi blöð las maður spjaldanna á milli. Sex til átta vikna gömul. Svo gengu þau á milli manna þarna úti. Oft komu þau svo til baka þegar allir höfðu lesið. Þá renndi maður aftur í gegnum þau.

Í dag les maður pdf-útgáfuna af DV áður en fólk á Íslandi er vaknað.

Á þessum tíma stóðum við í bréfaskriftum. Ekki í tölvupósti, heldur gamaldags bréfaskriftir á til þess gerð bréfsefni. Bréfin voru síðan sett í umslög og frímerki límt á. Stundum sex til sjö síðna bréf. Einhverjar vikur liðu áður en þau komust til skila. Mörg þessara bréfa eru enn til í dag. Þau er gaman að skoða.

Já, í þá gömlu góðu daga. Þá var nú margt öðrum vísi en í dag.

En tækninni hefur fleygt fram. Það var ágætt beggja vegna síðustu helgar. Við eigum nefnilega gamlan bílskrjóð heima á Íslandi. Eitt af því sem fylgir svoleiðis eign er árleg bifreiðaskoðun. Undanfarin ár höfum við komið heim um jól og látið skoða bílinn fyrstu viku í janúar. Rétt áður en við höldum aftur út í heim. Iðulega er tilheyrandi stress, ekki síst þegar viðhald er nauðsynlegt. Þegar bíllinn er gamall, þá er viðhaldið oft mikið. Og ekki gefins.

En þetta árið vorum við í útlöndum um jólin. Hvað var til ráða? Í fyrra höfðum við sett bílinn í viðgerð hjá Bíljöfri í Kópavogi fyrir skoðun. Vissum af einhverju sem gera þurfti við. Svo þegar ég fór með bílinn til þeirra, þá datt upp úr mér að ég ætli að láta skoða hann strax að viðgerð lokinni. „Eigum við ekki bara að sjá um þetta fyrir þig?“ var ég spurður. Ég kom alveg af fjöllum að hægt væri að fá svoleiðis þjónustu, en lét tilleiðast. Mikið var þetta þægilegt að þurfa ekki að hanga á kaffistofunni í Frumherja og bíða stóra dóms. Bara að mæta til að sækja bílinn og sjá nýjan fínan miða á númeraplötunni.

Ég ákvað því núna að hafa samband við Bíljöfur og sjá hvort þeir væru ekki til í að gera þetta aftur.

Og nú, eftir þennan langa formála, kemur tæknihlutinn.

Ég sendi þeim auðvitað tölvupóst til að panta tíma. Ekkert mál. Fékk svar um hæl, klukkutíma síðar þar sem mér var sagt hvaða dag mætti koma með bílinn. Síðan eftir að bílinn fór inn, hringdi ég tvisvar eða þrisvar í verkstæðið úr íslenska netsímanum okkar. Algjörlega frítt að hringja frá Malaví til Íslands. Svo þegar verkinu lauk, þá var hringt í mig frá Bíljöfri í netsímanúmerið til að minna mig á að borga reikninginn. Það gerði ég í netbankanum mínum innan við hálftíma frá símtalinu.

Samskiptin milli heimsálfa ekkert vandamál. Og allt meira og minna ókeypis.

Nema auðvitað reikningurinn frá verkstæðinu. En hann var í minna lagi. „Þetta er traustur bíll,“ var dómur bifvélavirkjans. Ekki slæmur dómur fyrir 16  ára gamlan bíl. Ammrískur, auðvitað.

Ég get mælt með Bíljöfri fyrir þá sem eiga flotta Kræsslera eins og við Gulla.

Þannig að nú er þessi árlegi höfuðverkur úr sögunni.

Næst er það skattframtalið...

1 ummæli:

litla systirin sagði...

hahhaahaaaa.... og alltaf var ég send útá pósthús með upprúlluðu blöðin sem þurftu að vera undir 500 gr annars þurfti að punga út fyrir 1 kg... vigin í eldhúsinu hennar mömmu var furðulega nákvæm ! Fagurrauð og er í dag í eldhúsinu mínu, ég veit að hún er mjög nákvæm :)

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...