30. júní 2013

Hjólatúrinn tók óvænta stefnu

Skömmu eftir hádegið lagði ég af stað í hjólatúr. Fór einn síðasta sunnudag og vildi ekki vera minni maður í dag. Þá hjólaði ég um sveitirnar hér í kringum borgina, en við búum í jaðri hennar. Í dag ákvað ég að hjóla innan borgarmarkanna. Var kominn með sirka leið í kollinn þegar ég lagði af stað. Markmiðið var að hjóla milli 20 og 25 kílómetra. Áætlaði ég sirka einn og hálfan tíma í þetta.

Í upphafi gekk vel. Á sunnudögum er frekar minni umferð en aðra daga, ja, a.m.k. fram að kaffileyti. Þá fara bílar að streyma inn í borgina í helgarlok. Því hef ég minni áhyggjur af umferð á þessum tíma sunnudags sem ég var á ferli.

Ætli ég hafi ekki verið kominn góða átta kílómetra þegar springur á hjólinu. Afturdekkið er orðið frekar vafasamt, en ég fresta alltaf fram í „næstu viku“ að kaupa nýtt dekk. Ég held ég hafi nuddast utaní beittan stein með þeim afleiðingum að gat kom á slönguna. En, ég reyni að vera við öllu búinn á þessum hjólaferðum, með bætur og einhver svona margfeldisreiðhjólaverkfæri. Svona verkfæri sem er einn hlutur, en hægt að umbreyta í allskonar sexkanta og ég veit ekki hvað og hvað. Margfeldisverkfæri. Gott orð.

Ég tek því afturhjólið af og fer að dunda mér í viðgerð. Hún gekk bara ágætlega og eftir kannski 15-20 mínútur var bótin komin á og bara eftir að pumpa í dekkið. Það gekk hins vegar ekki eins og í sögu. Ég er með einhverja svona handhægispumpu. Pumpu sem fer lítið fyrir og hægt að koma ofan í litla poka eða töskur. Hins vegar er ekkert handhægt við að pumpa með henni. Hún er svo stutt að hvert „pump“ hefur voða lítið að segja. Síðan ofhitnar hún hressilega þannig að erfitt er að halda utan um hana eftir 30-40 „pump“.

Ég sat því þarna við götukantinn, undir tré vel að merkja, og pumpaði og pumpaði. „Eitt hundrað pump í viðbót,“ hugsaði ég hvað eftir annað. Og pumpaði eitt hundrað „pump.“ Og svo eitt hundrað í viðbót. Og enn einu sinni eitt hundrað...

Þið fattið.

Þetta var farið að taka hressilega á. Svitinn bogaði af mér, enda þokkalegasti hiti svona um miðjan daginn. Örugglega 25 gráður á vin okkar Selsíus. Smátt og smátt varð dekkið aðeins stífara. Að lokum lagði ég af stað. Ætli viðgerðin, með öllu, hafi ekki tekið í kringum 40 mínútur.

Dekkið var nú engu að síður frekar lint, svo ég fór í hægara lagi. Vildi ekki eiga á hættu að skemma gjörðina, ef mikið högg kæmi á hana. Þetta er nefnilega einhver eðalgjörð, komst ég að um daginn. Ég hafði ekki hugmynd um það, en það eru til fyrirtæki sem sérhæfa sig í framleiðslu reiðhjólagjarða. Þá vitið þið það.

Ætli það hafi ekki verið fimm kílómetrum síðar sem dekkið sprakk aftur. Kannski ofsögum sagt að það hafi hvellsprungið, en þó þannig að loftið hvarf úr því í einu vettfangi.

Barasta „PÚFF!“ Og allt loft úr dekkinu.

Ekki voru falleg orð sem þutu um kollinn á mér. Ekki þó blótsyrði, enda veit sonur minn ungur að ég blóta ekki. En það eru nú til nokkur kröftug orð sem skilgreinast ekki sem blót.

Fyrir þá sem þekkja til var ég rétt við Vegamótahótelið (Crossroads). Enn slatti eftir heim. Svo ég kippi hjólinu aftur af og fer að toga út slönguna. Uppgötva þá að ventillinn hafði hreinlega rifnað af slöngunni.

Takk fyrir! Maður gerir ekkert við svoleiðis.

$#!# kínverskt slöngudrasl!

Ég sá mína sæng upp reidda. Tróð slönguræflinum inn í dekkið, smokraði dekkinu upp á gjörðina, setti hana aftur á hjólið og gerði það sem Malavar gera alltaf.

Labbaði af stað.

Og labbaði og labbaði þar til ég kom heim. Fjórum kílómetrum síðar. Þá hafði ég verið, samkvæmt staðsetningartækinu mínu, einn klukkutíma og fjörutíu mínútur á ferð og ríflega fimmtíuogfimm mínútur í kyrrstöðu. Meðalhraði ríflega níu kílómetrar á klukkustund. Heildarvegalengd var 17 komma þrír kílómetrar.

Svosum ágætis dagsverk, líkamsræktarlega séð. Og öll pumpunin! Maður minn. Þessar 55 mínútur ekki-á-ferð, voru ekki afslöppunarmínútur. Engan veginn.

En núna er ég kominn heim. Sit bak við hús. Timbrið á grillinu búið að kolagerast og marineruð lambarif komin ofan á. Einhvers staðar á ég rauðvín.

Nú á ég skilið að gera vel við mig í mat og drykk.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...