Við Gulla bjuggum í Kanada í fimm og hálft ár frá 1991 og þykir okkur vænt um landið. Enda býr Tinna Rut jú þar.
Það er ekki hægt að neita að Kanada er gott land að búa í og leið okkur vel þar. Stundum fáum við þá flugu í höfuðið að flytja þangað aftur, en hingað til hefur ekkert orðið úr svoleiðis pælingum.
En mér datt í hug að punkta niður nokkrar staðreyndir um landið, staðreyndir sem sumir kannski vita, en aðrir ekki. Allt til gamans gert.
- Í styrjöldinni 1812 börðust Bretar í N-Ameríku gegn Bandaríkjunum. Þótt Kanada væri ekki til þegar þetta var finnst Kanadabúum að þetta hafi verið þeirra stríð, enda urðu bresku nýlendurnar að Kanada seinna meir. Sumum finnst gaman að segja frá því að í þessu stríði þá náðu Bretar, nei, ég meina Kanadamenn, höfuðborg Bandaríkjanna, Wasington DC, á sitt vald og brenndu borgina. Þ.á.m. Hvíta húsið. Þetta kitlar aðeins.
- Tilvist Kanada má rekja til útrásarvíkinga. Hudson Bay félagið, sem í dag er verslanakeðja, svona eins og Hagkaup, var upphaflega í loðskinnaviðskiptum. Það sendi fólk út af örkinni út um allt á sínum tíma (við erum að tala um 16 hundruð og eitthvað og 17 hundruð og súrkál) til að kaupa loðskinn. Útsendarar þess voru upphafsmenn margra byggðakjarna sem seinna urðu borgir. Því má segja að Kanada hafi orðið til vegna þeirra sem vildu „græða á daginn og grilla á kvöldin.“
- Kanada tilheyrir enn breska samveldinu. Því er breska drottningin drottning Kanada. Öll lög sem kanadíska þingið setur þurfa samþykki landsstjórans, en hann er fulltrúi drottningar og skipaður af henni. Reyndar leggur forsætisráðherra Kanada til hver á að vera landsstjóri og drottningin samþykkir alltaf. En, engu að síður, svolítið skrýtið.
- Hlynsíróp er eitt af því sem Kanadabúar eru hvað hreyknastir af.
- Langar þig að taka þátt í róðrarkeppni í risastóru graskeri? Kanada er staðurinn!
- Við Íslendingar stærum okkur oft af súrsuðum hrútspungum. Sumsstaðar í Kanada eru nautspungar hnossgæti. Mér er sagt þegar nafni minn Bretaprins og frú heimsóttu veitingastað sem sérhæfir sig í svona löguðu, þá varð til nýr réttur: Krúnudjásnin!
- Viltu fara út á ystu nöf? Farðu þá í CN turninn í Tórontó og labbaðu hringinn á brún turnsins í 365 metra hæð, festur með einu snæri. Er ekki Hallgrímskirkja ríflega 75 metra há? Klikkaðir þessir Kanadabúar.
- Kanadabúar vita - kannski þó ekki allir - að Snorri Þórfinnsson var fyrsta barnið af evrópskum uppruna sem fæddist í Kanada, þá þekkt sem Vínland. Árið var líklega 1004. Að hann hafi flust aftur til Íslands og orðið bóndi í Skagafirði vita líklega færri.
- Við eigum Lagarfljótsorminn (nema hann sé dauður úr mengun) og Kanadabúar eiga Ógópógó. Sex til 20 metra langur vatnaormur sem hefur margoft sést síðan 1872 er hann sást fyrst svo vitað sé.
- Svo að lokum eitt með Vestur-Íslendingana. Einhverra hluta vegna finnst þeim vínarterta vera það íslenskasta af öllu íslensku. Skrýtið.
1 ummæli:
YOU ARE INVITED TO FOLLOW MY CHRISTIAN BLOG
Skrifa ummæli