13. júlí 2013

Ný dekk - loksins

Eins og tryggir lesendur muna, þá lenti ég í vandræðum í hjólreiðatúr um daginn. Ég lenti í kjölfarið í vandræðum með að finna dekk, en staðhættir í Lílongve eru þannig að þær hjólabúðir sem ég veit um eru í svokölluðu hverfi tvö. Til að komast þangað þarf að fara yfir Lílongve-ána, en brúin sú arna, er fara þarf yfir, er alræmdur flöskuháls í umferðinni. Ég skrökva ekki þegar ég segi að það sé biðröð yfir brúna allan liðlangan daginn.

En, ég fann slöngu í einni búð og gat því farið að hjóla aftur. Bar reyndar ekki fullkomið traust til dekksins, en lét mig hafa það. Þið þekkið þetta: „Ég hlýt að komast þessa ferð á leiðarenda.“ Svo kemst maður þá ferð og hugsar þá það sama um næstu ferð.

Auðvitað hlýtur svona að enda með ósköpum. Eða hvað?

Jú, auðvitað gerir það það.

Á miðvikudaginn var, þá var ég nýlagður af stað úr vinnunni þegar hvellsprakk. Og ég meina hvellsprakk. Þegar ég fór að skoða skaðann, þá varð mér strax ljóst að hann yrði ekki bættur á staðnum. Dekkið hafði hreinlega rifnað á 20 sm kafla. Síðar sá ég að yfir 10 sm langt gat var á nýju slöngunni. Ég hringdi því eftir aðstoð og lét keyra mig heim.

Svo í morgun, þá peppaði ég mig upp í að fara yfir brúna og kíkja í hjólabúð í hverfi tvö. Það tók kannski 15 mínútur að komast þessa 400 metra sem brúin líklega er. Þokkaleg hratt get ég sagt.

Keypti tvö dekk og tvær slöngur. Ákvað að skipta bæði að framan og aftan. Og nú er hjólið tilbúið í ævintýri næstu viku. Komin með þessi fínu kínversku dekk. Hjólið sjálft er svart og rautt á litinn. Því fannst mér flott að finna dekk með rauðri rönd.

Mjög lekkert.

 

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...