17. maí 2013

Hjólað í vinnuna

Þriðja árið í röð pjakkast maður með í að hjóla í vinnuna. Verður að segjast að maður hefur verið frekar slappur við að hreyfa sig það sem af er ári og því fínt að fá hvatningu af þessu tagi.

Við erum tveir hér á Lílongve-skrifstofunni sem tökum þátt. Neyddumst reyndar til að skrá okkur í Reykjavík. Ekkert póstnúmer í Malaví fannst á heimasíðu Hjólað í vinnuna...

Æ, svo hálfpartinn skammaðist ég mín þegar ég fór af stað fyrsta daginn. Ég ruglaðist nefnilega á gírskiptingunni, tvisvar, þrisvar sinnum. Setti í þyngri gír þegar ég ætlaði að létta stigið. Og öfugt.

Ekki gott til afspurnar. Og nú er þessi vitneskja komin á veraldarvefinn.

Jæja, ég hlýt að lifa það af.

En ég er búinn að hjóla til og frá vinnu í sjö daga. Tvisvar hef ég meira að segja notað hjólhestinn til að komast á fundi. Það hefur vakið athygli. Ekki á hverjum degi sem „maður í minni stöðu“ (svo maður ofmetnist nú) hjólar á fund. Ég hélt því reyndar fram við kollega mína að þetta væru nýjar aðgerðir íslenskra stjórnvalda í niðurskurði, að skikka alla til að fara á hjóli á fundi. Kollegarnir keyptu það nú ekki alveg.

Væri reyndar ekki vitlaus hugmynd. Myndi spara bensín, þar með vernda umhverfið, og svo til lengri tíma leiða til sparnaðar í heilbrigðiskerfinu.

Væri ekki flott fyrir þá Sigmund og Bjarna að hjóla til Þingvalla í bústaðinn?

En, nóg komið af bulli.

Á þessum sjö dögum hef ég hjólað 132 kílómetra. Mér finnst það vel að verki staðið. Næstum því 19 km að meðaltali á dag. Reyni að hjóla ekki alltaf sömu leið og hef mest hjólað 23 km á einum degi.

Sex dagar til viðbótar og þá er kvótinn fylltur þetta árið.

Hjóla svo!

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...