Mættu hingað nokkrir landar og greiddu sín atkvæði, allt samkvæmt öllum kúnstarinnar reglum. Hélt ég að engir eftirmálar yrðu síðan.
Nema hvað. Einhverjum klukkustundum eftir að kjörfundi lauk, birti einn kjósenda eftirfarandi fésbókartilkynningu:
Var alveg staðráðinn í að hunsa þingkosningarnar. En svo kom ég á kjörstað í dag og fékk vöfflur með rjóma og sultu. Þá varð ég svo hamingjusamur að ég fyllti út kjörseðil og sinnti allri pappírsvinnunni sem fylgir utankjörstaðaatkvæðum. Sé svo núna að ég hef gert verstu mistök ævi minnar. Kjörseðillinn endar í malavísku klósetti!Mér þótti þetta með ólíkindum. Ég fletti upp í öllum mínum kjörstjóraleiðbeiningum, en hvergi er minnst á það að vöfflur með sultu og rjóma séu eigi leyfilegar á kjörfundi. Og ekkert um að þær teljist áróður á kjörstað. Enda erfitt að sjá hvernig það að gera fólk hamingjusamt sé áróður.
Eru kannski einhverjir flokkar sem gera tilkall til þess að vera „hamingjuflokkar“ og aðrir sem eru „óhamingjuflokkar“? Eða jafnvel „hörmungarflokkar“?
En, í kjölfar þessa atburðar fæddust þessar hnoðlimrur, svona til að reyna að skilja þessa hörmungarupplifun:
Á kjördegi vild'ég ei kjósa
nei, fyrr skal í helvítinu frjósa
æ, fæ mér þó rjóma
vá, söngvar óma
er dásama dýrð í lit rósa
Kjörseðil kátur í mér næ
atkvæði kasta má ei á glæ
nú ég kýs
og gleðin gýs
vöfflu með rjóma víst ég fæ
Svo inn í bílinn ég sest
höndlað hamingjuna fyrir rest
guð minn góður
er ég snaróður?
sturt'öllu niður er best
1 ummæli:
Góður limruhnoðrari Villi :-)
Skrifa ummæli