17. maí 2013

Eru ekki orkuboltar þreytandi fyrir okkur hin?

Fyrr í dag skutlaði ég Rúnari Atla á karate-æfingu. Æfingarnar á föstudögum eru ekki í skólanum hans, eins og aðra daga, heldur í fundarsal á móteli einu hér í Lílongve. Kannski 10 km akstur.

Stundum koma einn eða tveir skóla- og karatebræður hans með heim úr skólanum og þeir fá að fljóta með. Enda skemmtilegra að fara með vinum.

Í dag voru vinirnir reyndar fjórir. Þrír guttar átta og níu ára, og svo einn svolítið eldri.

Fimm gaurar samtals.

Og lætin í þeim, jedúddamía, eins og tengdamóðir mín sáluga hefði án efa sagt.

Þeir þutu hér út um allt hús og út í garð þegar þeir áttu að vera að fara inn í bílinn. Á endanum byrsti ég röddina og þá tíndust þeir að bílnum. Stukku svo inn, hver um annan þveran, þegar ég lofaði að þeir mættu öskra eins hátt og þeir gætu þegar ég væri búinn að loka bílhurðunum.

Þeir tóku mig á orðinu...

Og svo var hoppað og ærslast eins og hægt var. Mikið hrópað og hlegið. Mest var að sjálfsögðu hlegið þegar fýlubombur leystust úr læðingi.

Já, svona gekk þetta alla leiðina.

Síðan tók við karate-æfing í 70 mínútur eða svo. Allir voru rennandi sveittir þegar ég náði í pilta.

Var ekki heimferðin róleg? spyrjið þið.

Ó, nei, ekki var því að heilsa. Heimferðin var nákvæmlega eins og ferðin á æfingu.

Nema hvað, umferðin í Lílongve á föstudagseftirmiðdögum sniglast áfram á einhverjum lúsarhraða.

Tók mig þrjú-korter að losa mig við alla guttana og komast heim.

Á meðan - stanslaust stuð í bílnum.

Þvílík orka...

... maður verður bara þreyttur að hugsa um hana...

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...