30. janúar 2010

Gæludýr

Eins og dætur mínar geta borið vitni um hef ég aldrei verið mikið fyrir gæludýr. Einhvern tímann á unga aldri átti ég kött. Pési, minnir mig að hann hafi heitað. En ég hef barist hetjulegri baráttu gegn gæludýrum inn á heimilið.

Þó hafa dæturnar nokkrum sinnum farið með sigur af hólmi í baráttunni. Fiskar hafa ratað inn á heimilið. Meira að segja smíðaði ég líkkistu utan um einn. Hamstrar hafa líka verið fjölskyldumeðlimir um tíma og nokkrar finkur.

Rúnar Atli hefur ekki hafið baráttuna að neinu marki enn. Þó, þegar ég sótti hann í skólann í gær eða fyrradag þá var honum mikið niðri fyrir og dró mig inn í skólastofuna. Þar sýndi hann mér glerkúlu fulla af vatni. Voru í henni nokkur síli og þrír froskar. Ja, pínulitlar körtur.

Greinilegt var að pilt langaði að eignast fiska. Helst líka froska. Eftir nokkrar samningaumræður ákváðum við feðgarnir af fara á stúfana á laugardag, sem sagt í dag, og kíkja í gæludýrabúð. Var móðurinni tilkynnt þetta.

Svo var lagt í leiðangur í dag. Við fundum eina búð sem er bókstaflega full af fiskabúrum og öllum mögulegum og ómögulegum fiskategundum. Sniðugt að þarna var eitt búr með Nemó þema. Þ.e.a.s. í búrinu voru nokkrir Nemóar og Marelar ásamt nokkrum eintökum af Dóru. Rúnar Atli var ekki lengi að sjá tengslin við bíómyndina.

Við sögðum eigandanum að við hefðum áhuga á einhvers konar byrjendasetti. Hann var nú ekki í vandræðum með að selja okkur fiskabúr og fiska. Gaf okkur svo ýmislegt í kaupbæti, plöntur og möl og fleira smálegt. Jú, ekki má gleyma skítugu vatni sem við fengum frá honum. Ekki gengur víst að fiskarnir lendi í „hreinu vatnssjokki.“

Rúnar Atli er sem sagt núna stoltur eigandi fiskabúrs og tíu fiska. Fimm kallast „gobies“ og hinir eitthvað annað... Pínulitlir, en víst frekar auðveldir í umhirðu. Nú er bara að sjá hvernig gengur. Rúnar Atli er með það á hreinu að ekki þýði að gera eitthvað stórmál ef fiskur hrekkur upp af. „Pabbi, við bara kaupum nýjan!“

Engar líkkistur eða neitt sentimental í kringum þetta. Það líkar mér.

1 ummæli:

Tinna sagði...

Ha? Tíu fiskar??

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...