Já, hvers konar bær er Prince George eiginlega?
Fyrst er best að nefna að umhverfið er mjög fallegt. Núna þegar bærinn er klæddur vetrarskrúða, þá er mikil náttúrufegurð. Svimandi há grenitré, umvafin snjó, eru ótrúlega falleg. Og það er mikið af trjám þarna. En þarna hefur kyngt niður snjó undanfarið, og eru tveggja til þriggja mannhæðaháir snjóruðningar meðfram mörgum götum.
Ég ímynda mér að fegurðin sé síst minni á sumrin, þegar allt er grænt.
Vegna alls þess skógar sem þarna er, þá er skógarhögg og ýmiskonar myllustarfsemi þungamiðja atvinnulífsins. Bærinn er að miklum hluta iðnaðarbær, rauðhálsabær ef maður þýðir beint úr enskunni. Mikið er af stærðarinnar flutningabílum og ýmsum atvinnutækjum. Hér skilur maður, frekar en á Íslandi, af hverju ekið er um á stórum amerískum pallbílum. Sumir hverjir með snjóplóg framan á sér, þ.a. ekki þurfi að bíða eftir opinberum ruðningstækjum. Mörg störf þarna eru verkamannastörf. Alskegg, derhúfa, köflótt vinnuskyrta og gallabuxur er ekki óalgeng tíska karlmanna og maður heyrir svolítið þennan ruddatalsmáta sem virðist fylgja verkamannastörfum.
Á móti þessu kemur að Prince George er stjórnsýslumiðstöð norðurhluta bresku-Kólumbíu. Því er mikið af alls konar opinberum stofnunum þarna og við fyrstu sýn virðist hægt að sinna öllu því sem þarf gagnvart stjórnvöldum án þess að takast á hendur löng ferðalög. Svona stofnanir og þeirra starfsfólk veita svolítið mótvægi gegn verkamannahugsanahættinum. Skapa fjölbreytni í samfélaginu.
Síðan er jú háskólinn. Hann dregur að menntað fólk og heldur ungu fólki lengur á svæðinu heldur en annars væri. Eins og í mörgum háskólabæjum er því forvitnileg blanda af fólki sem gefur skemmtilegt yfirbragð.
Töluvert er þarna af fólki af asísku bergi brotið, meira en ég átti von á.
Allar mögulegar og ómögulegar verslanir virðast vera í bænum og er enginn skortur á vörum, hverju nafni sem þær kunna að nefnast. Hellingur af veitingastöðum og síðan er ýmis konar afþreying þarna. Ég rak augun í keiluklúbb, þ.a. hver veit nema Tinna Rut dusti rykið af keilukúlinni og komist að því hvernig fyrrum Íslandsmeistari í keilu stenst samanburð við kanadíska keilara.
Bærinn er ekki mjög stór. Ég var farinn að átta mig á helstu umferðarleiðum, þótt ég hafi ekki verið þarna lengi. Maður er ábyggilega fljótur að læra að rata um götur bæjarins.
Eins og Kanadamönnum er von og vísa þá eru íbúar Prince George yfirmáta kurteisir og þægilegir í umgengni. Allir eru forvitnir um hver maður er og hvaðan maður komi. Og á móti fær maður að vita allt um hinn aðilann. Einhver sem afgreiðir mann um bækur fer að spurja hvaðan bankakortið manns sé, og til að jafnvægi sé í öllu fylgir með sögunni að sá sem spyr sé nú fæddur og uppalinn í Edmonton. Þetta er mjög ólíkt þeirri miklu þögn sem ríkir í samskiptum milli fólks í Namibíu þar sem yfirleitt er bara rætt um það sem þarf til að afgreiða mál.
Í hnotskurn þá voru fyrstu kynni af Prince George góð og mér líst ágætlega á bæinn fyrir Tinnu hönd. Ég væri alveg til í að koma að sumri og aka sem leið liggur frá Vancouver til Prince George. Það er ábyggilega meiriháttar ferðalag.
Kannski við Gulla eigum það eftir síðar.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Bara alltaf í Amsterdam
Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...
-
Buðum fólki heim á laugardagskvöldið. Auðvitað var grillað, hvað annað? Grillið hefur varla fengið tíma til að kólna frá því það var keypt. ...
-
Buðum fólki heim á laugardagskvöldið. Auðvitað var grillað, hvað annað? Grillið hefur varla fengið tíma til að kólna frá því það var keypt. ...
-
Áðan skruppum við í göngutúr um nágrennið okkar. Ég var búinn að stúdera næstu götur svolítið á kortavef hr. Gúguls og var kominn með áætlun...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli