4. janúar 2010

Kanada

Þá erum við Tinna Rut komin á leiðarenda. Prince George. Við flugum frá Seattle í morgun, en það flug var ekki nema 35 mínútur. Hlægilega stutt.

Svo tókum við okkur bílaleigubíl í Vancouver, því við áttum margra tíma bið fyrir höndum. Við rúntuðum á gamlar slóðir. Fengum okkur morgunmat á IHOP, en það var uppáhaldsmorgunverðarstaðurinn okkar í þá gömlu góðu. Við ókum svo um háskólasvæðið þar sem ég stundaði nám til fjölda ára. Ég sýndi Tinnu Rut húsið sem við bjuggum í, fyrsta leikskólann hennar og ýmislegt annað. Þetta var mjög gaman.

Mér þótti merkilegt hversu auðveldlega ég rataði, því ég hef ekki komið til Vancouver síðan 2001. Og þá bara í fjóra daga eða svo. En þarna eru miklar vegalengdir, því ég ók næstum því 80 km á þessum rúnti.

Við flugum síðan til Prince George. Alveg troðfull flugvél, en þar sem flugið var innan við klukkutíma þá skipti það nú litlu.

Síðan var gengið niður landganginn út í 11 gráðu frost. Já, landganginn. Það var sko ekkert verið að hlífa manni við að fara út í kuldann. Reyndar var veðrið mjög gott, blankalogn og því fann maður lítið fyrir kulda. En hérna er allt á kafi í snjó. Ég var spurður af stúlku á bílaleigunni hvort ég vildi hafa vetrardekk undir bílnum, en það kostar 10 dali aukalega á dag. Ég hélt það nú. Sagði henni reyndar að mér finndist að þeir sem ekki vildu vetrardekkin ættu að borga aukalega.

Vegirnir eru glerhálir. Greinilega eru ýmsir á slöppum dekkjum, því menn voru að taka tilhlaup í smáslakka til að komast af stað á grænu ljósi.

Hótelið er nokkuð sérstakt. Hér er hitabeltisgróður inni í stærðarinnar yfirbyggðu porti, en herbergin raðast í kringum portið. Er sundlaug hérna og nokkrir nuddpottar. Mjög merkilegt miðað við lofthitann utandyra.

Við Tinna Rut fórum svo inn á háskólasvæðið og hún fékk lykla að herberginu sínu. Ágætisherbergi en þó í minna lagi. Hún hitti einn af herbergisfélögunum sínum og virtist þar vera á ferð ágætasta stúlka. En á morgun þarf að kaupa ýmsar nauðsynjar og útrétta ýmislegt. Ég verð hér bara á mánudag og þriðjudag og því ekki mikill tími til stefnu.

Meira síðar.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...