14. september 2006

Bíladella

Rúnar Atli er nú alveg frábær. Fyrr í dag var ég að sækja hann af leikskólanum. Við erum með ákveðna rútínu þar sem ég læt hann hafa bíllykilinn og svo opnar hann bílinn þegar við komum út á plan.

Í dag þó brá hann út af vananum og lét mig hafa bíllykilinn til að geta lokað hliði sem er þarna, en það er með krók í góðri hæð fyrir hann. Síðan þegar hann er búinn að loka vill hann ekki fá lykilinn aftur. Mjög óvanalegt.

Hann stendur bara við hliðið og bendir eitthvað og segir „pló, pló“.

Ég skil ekki neitt í neinu en fæ hann nú til að leggja af stað í áttina að bílnum, svo við löbbum aðeins lengra. Enn vill hann ekki lykilinn, stoppar aftur og bendir:

Pló, pló, pló

Ég fer því að horfa betur í kringum mig og sé að hann er að benda á fólksvagn af Póló gerð! Pló var semsagt Póló.

Það er nefnilega Póló í vinnunni hjá mér og ég nota þann bíl stundum. Sótti Rúnar Atla á honum fyrir nokkrum dögum. Lykillinn á þeim bíl er nefnilega svo flottur að Rúnars Atla mati. Ef maður ýtir á lítinn takka þá skýst lykillinn út. Hann vildi sem sagt svoleiðis lykil, úr því hann sá Póló á staðnum.

Að lokum tókst mér að sannfæra hann að koma í Toyotuna eins og venjulega.

En drengur þekkir greinilega bílana sína.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

jemin hvað drengurinn er klár.... Ohhh alveg eins og frænka sín :))))

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...