Annar dagur var tekinn snemma. Átti að sækja þrjú okkar fyrir klukkan sjö. Ég, Doddi og Dagmar Ýr ætluðum á kanó. Báðum við um að morgunmatur væri tilbúinn snemma og var það auðsótt. Til að komast á byrjunarreit kanóferðarinnar þurfti að hristast tvo tíma í bíl í þjóðgarði sem liggur meðfram Sambesi-ánni. En við vorum ekki komin út úr bænum þegar við ókum fram á stærðarinnar hjörð af buffölum. Man ég ekki eftir að hafa séð buffala áður, en þarna voru þeir í tugatali. Bara í rólegheitum rétt innan bæjarmarka að tyggja gras.
Að öðru leyti var bíltúrinn tíðindalítill. Þegar við komum í áfangastað þá voru dregnar fram veitingar, rúnnstykki og einhverjir drykkir. Gátum við þá aðeins spjallað við leiðsögumanninn og bílstjórann. Þeim fannst að ferðamennskan væri aðeins farin að taka við sér á nýjan leik, en þó væri enn langt í land miðað við áður fyrr. Ég spurði þá út í gjaldmiðilsbreytinguna og sögðu þeir að innistæður allra væru frystar í bönkunum. Enginn gæti tekið út neitt og enginn vissi hversu mikið fengist fyrir innistæðurnar þegar opnað yrði fyrir bankaviðskipti á nýjan leik. En að spjalli loknu tók alvaran við.
Frekar var kalt svona snemma morguns, eins og bersýnilegt er. Náttúrufegurðin var þó mikil, eins og annars staðar nálægt Viktoríufossum.
Hér er Dagmar Ýr svo til í allt.
Ég og Dagmar Ýr vorum saman í báti og Doddi var með bandaríkjamanni nokkrum. Síðan var leiðsögumaðurinn einn á báti. Ég var stýrimaður og sat því fyrir aftan dóttur mína. Það var ágætt, því hún sá þá ekkert þegar ég nennti ekki að róa...
Túrinn var mjög skemmtilegur. Við sáum nokkra litla krókódíla og heilmikið af flóðhestum. Sumir þeirra voru meira að segja uppi á bökkum að éta, þ.a. við sáum meira en bara nasir og augu standa uppúr vatninu. En ótrúlega eru þessi stóru, og að virðist klunnalegu, dýr snögg í hreyfingum. Eitt skiptið laumuðumst við að þar sem fjórir flóðhestar voru á eyju einni. Eitthvað vorum við komin of nálægt, að þeirra mati, því einn rumdi og á augabragði ruku þeir allir ofan í ána. Eldsnöggir. Svo sáum við nokkra fíla á árbökkunum.
Ferðin var nokkuð þægileg. Fórum þó í gegnum tvennar sæmilega straumharðar flúðir. „Annars stigs flúðir,“ sagði leiðsögumaðurinn. Á skalanum einn til fimm. Fyrir þá sem vilja, þá er hægt að fara í „alvöru“ flúðasiglingar þarna, en við gerðum það ekki að þessu sinni. Enginn tími til þess. Bara næst.
Svo lenti ég í því óhappi að missa myndavélina hennar Tinnu, sem ég hafði fengið lánaða hjá Dagmar Ýr, ofan í kanóinn. Hefði verið í lagi, nema fyrir ökkladjúpt vatn. Var ég þó eldsnöggur að veiða vélina upp og virðist hún vera í lagi. Sem betur fer.
Við komum aftur á gistiheimilið um hálftvö. Frekar þreytt og dösuð, en ánægð.
Ekki var nú slakað mikið á. Rúmlega þrjú vorum við sótt og farið með okkur á búgarð nokkra km fyrir utan bæinn. Búgarður þessi er litlar 6.000 ekrur, sem er víst langleiðina í 2.500 hektara. Ýmis dýr búa þarna og þar á meðal 16 afrískir fílar sem búið er að þjálfa sem reiðfíla. Við fórum sem sagt á fílabak.
Ekki vorum við ein um hituna, heldur voru þarna ábyggilega hátt í 20 manns að okkur meðtöldum. Eftir að klappa fílunum og hlusta á leiðbeiningar var farið á bak. Tveir á hverjum fíl að viðbættum stýrimanni. Gulla og Rúnar Atli fóru saman og ég og Dagmar Ýr. Þurfti að ganga upp stiga áþekkum flugvélastiga til að komast á bak. Fílar eru heldur engin smásmíði. Síðan sest maður klofvega á fílinn í einhvers konar stól sem útbúinn hefur verið í þessum tilgangi. Síðan var lagt af stað - „einn fíll lagð'af stað í leiðangur, lipur var hans fótgangur, takturinn fannst honum heldur tómlegur, svo hann tók sér einn til viðbótar.“ - sönglaði í kollinum á mér.
Við vorum á rölti þarna í u.þ.b. klukkutíma. Ekki var farið hratt yfir, rétt gönguhraði. Athygli okkar vakti að einn maðurinn í fylgdarliðinu var með riffil. Spurði ég stýrimanninn okkar hverju þetta sætti. Jú, eitthvað er af buffölum á búgarðinum og þeim og fílum kemur víst frekar illa saman. Ef buffalar sjást þá er skotið upp í loftið til að hræða þá í burtu.
Hmm.
Hvernig skyldu fílar bregðast við riffilskoti?
Sem betur fer reyndi ekki á það.
Ég verð nú að viðurkenna að þetta var ekki með skemmtilegustu klukkutímum lífs míns. Tíu mínútur hefðu verið alveg nóg fyrir mig. Reyndar voru stuttir lærvöðvar mínir að angra mig því fílar, verður að segjast, eru frekar sverar skepnur. Ég er alls óvanur að sitja jafnútglenntur og nauðsynlegt er til að haldast á fíl. Reyndi ferðin því mikið á mína stuttu lærvöðva. Þegar túrnum lauk átti ég síðan í mestu erfiðleikum með gang. Hlæ að því núna, en mér var ekki hlátur í hug fyrsta kortérið eftir að ég komst aftur niður á jörðina.
En, ég hef farið á fílsbak, sem er fyrir mestu.
Síðan gáfum við fílunum að borða og síðan fengum við eitthvað smávegis í gogginn áður en farið var með okkur í kvikmyndasal nokkurn. Þar var okkur sýnd stuttmynd af ferð okkar, en hana var hægt að kaupa fyrir þrjátíu bandaríkjadali. Auðvitað gerðum við það. Hvað annað?
Þegar við komum aftur á gistiheimilið var ég gjörsamlega magnþrota. Nennti engan veginn út að borða, svo við fengum okkur bara samlokur á gistiheimilinu. Sofnaði ég snemma og var þannig um fleiri.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Bara alltaf í Amsterdam
Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...
-
Áðan skruppum við í göngutúr um nágrennið okkar. Ég var búinn að stúdera næstu götur svolítið á kortavef hr. Gúguls og var kominn með áætlun...
-
Rúnar Atli fékk að fara eftir skóla heim til bekkjarbróður síns, Liams. Liam og Rúnar Atli eru virkilega góðir vinir og alltaf mikill spenni...
-
Þá er komið að því að ræða viðhaldið. Nei, nei, hvað er að ykkur? Skammist ykkar. Auðvitað er allt er í fínu hjá okkur Gullu. Ja, a.m.k....
Engin ummæli:
Skrifa ummæli