Svona dags daglega er lífið frekar tilbreytingarlítið. Klukkan hringir milli fimm og hálfsex á morgnana, allir staulast á fætur og fá sér morgunmat. Börnin fara í skóla og leikskóla, ég í vinnuna, Gulla leggst yfir skólabækurnar. Svo kemur hádegið, börnin og ég koma heim í hádegismat. Ég fer síðan aftur í vinnuna. Kem heim skömmu fyrir kvöldmat. Eftir matinn spilum við veiðimann og síðan horft á sjónvarp og farið að sofa.
O.s.frv.
Já, lífið í henni Afríku er spennandi...
Í dag dró reyndar til tíðinda. Í því sem fundi einum var að ljúka tókum við eftir reyk utan við gluggann. Glugginn er reyndar á fimmtu hæð...
Þegar við litum út um gluggann sáum við bíl, alelda. Ekki alveg sjón sem mætir mér á hverjum degi hér í Windhoek. Kannski þætti þetta ekki merkilegt í Bagdad, en hérna vakti þetta töluverða athygli. Fullt af fólki í kring og einhverjir voru að baksa við slökkvitæki, en með litlum árangri, eins og sést á meðfylgjandi mynd.

Sem betur fer mætti slökkviliðið og verður að viðurkennast að þeir báru sig faglega að og slökktu eldinn á örskotsstund.

Svo er bara að vakna í fyrramálið milli fimm og hálfsex...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli