6. október 2009

Á ferð og flugi

Sit núna á gistiheimili Wendels í Lilongve í Malaví. Sötra á gini og tóniki - einföldum - og hripa niður þessi orð. Erindi mitt hér eru fundahöld, en öllum umdæmisstjórum Þróunarsamvinnustofnunar, sem reyndar er æ minni stétt, var stefnt hingað þessa vikuna.

Kom hingað um hádegisbil, en lagði af stað frá Windhoek um kaffileytið í gær. Síðustu nótt gisti ég á Flugvallarhótelinu hinu mikla í útjaðri Jóhannesarborgar. Hafursborg heitir útborgin. Kannski hljómar Bokkaborg eða Hafurshöfði betur á því ylhýra þótt Hafursborg sé bein þýðing úr afríkönsku. Hótelið hið mikla ber nú kannski ekki alveg nafn með rentu. Jú, nálægt flugvellinum er það, svona 10 mínútna akstur. Og það er ósköp huggulegt. En ,,hið mikla'' - nei, það nafn er ekki alveg að gera sig. Tvær heilar hæðir gefa nú varla tilefni til að kallast hið mikla. Flugvallarhótelið fágaða væri kannski frekar við hæfi. Eða kannski Hótel hið huggulega, því þetta er ágætis hótel. En látum nú ekki heimspekilegar vangaveltur eyðileggja dagbókarfærsluna, loksins þegar ég sting niður penna.

Ég lét ferðaskrifstofuna velja hótelið því ég verð að viðurkenna að þekkja Jóhannesarborg ekki neitt. Hálfskammarlegt því frá Windhoek er ekki nema tveggja tíma flug. Í þessi örfáu skipti sem ég álpast út fyrir flugvöllinn, þá er ég alltaf með varann á mér. Ekki er jú orðspor Jóhannesarborgar neitt til að monta sig yfir þegar kemur að glæpum. En í gær var greinilega engin ástæða til að stressa sig.

Annars var ég orðinn frekar pirraður á flugvellinum í Windhoek. Segi alltaf við börnin mín að það eina sem þýði þegar lagt er af stað í flugferðir sé að brynja sig með þolinmæði. Og svo meiri þolinmæði. Reyni ég að fara eftir þessu, en í gær lá við, lá við, að þolinmæðin mín rynni að þrotum. Svo ég noti orðatiltæki sem virðist vinsælt heima á Fróni um þessar mundir þá lenti ég í biðröð dauðans. Jamm, hvorki meira né minna. Biðröð dauðans.

Tinna Rut skutlaði mér þessa 40 kílómetra sem liggja að flugvellinum. Við renndum í hlað tveimur tímum og tveimur mínútum fyrir brottför. Þá var kominn þokkaleg biðröð, fjórar reyndar, en þó ekkert lengri en gengur og gerist. Ég sá fram á svona 15-20 mínútur og síðan kaffibolla og rúnnstykki. En, nei, ó-nei. Þegar Tinna Rut var komin heim, og vel að merkja hún
er ábyrgur ökumaður sem glannar ekki, þá var ég búinn að færast u.þ.b. þrjá metra. Ekki veit ég hvað var í gangi, en greinilega var eitthvað bilað í tölvukerfinu. Sumir þjáningarbræður mínir voru orðnir allnokkuð ergilegir yfir þessu, enda leið tíminn nær og nær brottför, en biðröðin mjakaðist ekki. Einstaka farþegi fékk brottfararspjald, en langt leið á milli hvers þeirra. Birtist svo hlaupari nokkurs konar. Hann var starfsmaður flugfélagsins og tók hann að sér röðina sem ég
var í. Hann vigtaði töskur, fékk vegabréfin í hendur og tók svo á rás. Skaust inn á einhverja skrifstofu og birtist svo aftur á hlaupum með brottfararspjöld og töskumiða. Stóð hann sig vel og var þó nokkuð fljótari en þeir sem sátu við innritunarborðin. Mín röð varð því að lokum sú fljótasta. En heilan fótboltaleik tók að fá brottfararspjaldið.

Lítið varð því um kaffi og rúnnstykki. Kók og Kitkat varð niðurstaðan.

En ég komst í það minnsta á áfangastað. Meira síðar.

1 ummæli:

jóhanna sagði...

jáhá það er nú mikið sagt þegar þú verður óþolinmóður, allt er gott sem endar vel. Hlakka til að lesa framhaldið

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...