Gott mál?
Jú, nema hvað að bröltið í mér vekur iðulega mína heitelskuðu, svo hún kveikir á lampanum og fer að lesa á nýjan leik...
Ég ímynda mér að lesendur séu farnir að átta sig á þeim vítahring sem hér getur myndast.
Ýmsar leiðir hafa verið reyndar til að bjarga þessu vandamáli. Hafa svonefndir ljósálfar verið mjög vinsælir í jólapökkum frúarinnar á liðnum árum. Raunin hefur þó verið að þetta er skammgóður vermir. Iðulega fara perurnar fljótlega og einhverra hluta vegna er ekki auðvelt að finna þær í búðum.
Dætur okkar vita af þessum ljósaverkjum foreldranna og reyna að koma með lausnir. Enda góðar dætur.
Dagmar Ýr rakst á meðfylgjandi leslampa á femin.is.

Var hennar von að þarna væri lausnin komin og gaf mömmu sinni lampann því í jólagjöf.
Í gærkvöld sem leið var prufukeyrsla. Ég rumskaði einhvern tímann og þetta fína myrkur í herberginu, aðeins smátýra lifði á lampanum og Gulla að lesa. Ég hélt því áfram að sofa í sæluvímu.
Nema hvað.
Stuttu seinna vakna ég aftur. Þá var Gulla steinsofnuð. Kveikt var á nýja fína leslampanum og haldiði ekki að geislinn hafi lýst beint í andlitið á mér... :-(
Sumu tekst bara ekki að breyta.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli