4. desember 2008

Eins dauði er annars...

Ég á forláta lyklakippu sem ég erfði frá pabba. Á henni er mynd af Caterpillar jarðýtu. Þessa kippu fékk pabbi þegar hann um miðjan sjötta áratug síðustu aldar þáði boð að heimsækja Caterpillar verksmiðjur í Bandaríkjunum. Hefur áreiðanlega þótt mikið ævintýri á miðju haftatímabili. Haftatímabili hinu fyrra. Þessi kippa er einn af mínum mestu dýrgripum.

Í hádeginu fór ég til tannlæknis. Kona sú rekur augun í lyklakippuna og fer að spyrja mig um hana. Þegar ég hef lokið sögu kippunnar, þá fer hún að segja mér frá þýskri konu sem giftist namibískum manni fyrir nokkru síðan og fluttist búferlum til Namibíu. Áður en konan fer frá Þýskalandi tryggði hún skartgripina sína. Fyrst þurfti hún þó að láta meta þá til verðgildis. Einn af hennar uppáhaldsgripum var glæsilegur gullhringur sem hún erfði frá ömmu sinni. Hún segir matsmanninum hvaðan hringurinn komi. Sá horfir á hringinn, skoðar svolítið, og segir svo: „Já, há, svo afi þinn var nasisti." Kom á konuna, sem hváir og spyr hvað hinn eigi við. Jú, sá vildi meina að þessi hringur hefði verið í eigu gyðinga sem lentu í útrýmingarbúðum nasista.

Eitthvað minnkaði verðmæti ömmuhringsins í augum konunnar eftir þetta.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...