9. nóvember 2014

Fjölskylduíþróttasunnudagur

Þótt við séum nú engir stóríþróttamenn, þá pjökkumst við aðeins hérna í Malaví.

Rúnar Atli er líklega öflugastur, stundar ýmsar íþróttir í skólanum. Íþróttirnar hjá honum breytast önn frá önn, núna stundar hann þríþraut og tennis, en rauði þráðurinn hans er karate. Hann æfir það þrisvar í viku og er orðinn nokkuð fær. A.m.k. að áliti föðurins.

Ég flækist um á reiðhjólinu mínu, reyni að fara ekki sjaldnar en þrisvar í viku á því til vinnu, þótt það gangi nú ekki alltaf. Svo er ég í litlum hópi sem hittist flesta sunnudagsmorgna og fer í hjólreiðatúra um sveitirnar hér fyrir utan Lílongve. Algengt er að við förum 40 til 60 km í hvert sinn. Þetta er skemmtilegt og meira gaman þegar fleiri eru með.

Gulla er komin í gönguhóp sem hittist tvisvar í viku, ef ég man rétt. Þær - allt konur - arka hér um nágrennið fimm til sex kílómetra.

En, við gerum þetta öll svolítið í okkar horni og sjaldan saman.

Í morgun varð breyting á. Við fórum saman og tókum þátt í skemmtiíþróttadegi sem var haldinn hér í borginni. Þýska sendiráðið studdi þetta, því einmitt núna eru 25 ár frá falli Berlínarmúrsins og var haldin ein ræða af tilefni þessa - ég missti reyndar af ræðunni...

Hægt var að hjóla 21 km á fjallahjóli, hlaupa sömu vegalengd, skokka eða ganga 5 km og síðan var aðalviðburðurinn, 2 km skemmtiskokk þar sem þátttakendur og áhorfendur voru vopnaðir litadufti sem var dreift á, ja, alla sem voru nálægt.

Ég skráði mig í hjólatúrinn, Gulla í 5 km göngu og Rúnar Atli í skemmtiskokkið. Þ.a. fjölskyldan var saman í íþróttum!

Og morguninn var skemmtilegur.

Enn með drauma um miðjan hóp!
Dagurinn var tekinn snemma, því ég þurfti að mæta 20 mínútur yfir fimm, en hjólatúrinn hófst klukkan sex. Já, um morguninn. Hér er dagrenning nefnilega í kringum fimm að morgni og því hefst allt hér eldsnemma. Svo vill maður reyna á sig áður en sólin kemst of hátt á loft.

Þetta var heilmikið ævintýri fyrir mig. Ég man ekki eftir að hafa tekið þátt í hjólakeppni áður. Það er þá svo langt síðan að sú reynsla liggur í óminnislandi. Fjörutíu keppendur voru skráðir til leiks, en eitthvað færri mættu. Síðustu daga var ég svolítið rogginn með mig - í huganum - og fannst að ég gæti nú endað meðal tíu efstu. Í morgun, þegar ég mætti og fór að virða fyrir mér keppendurnar þá dró ég aðeins úr væntingunum...

Svona í kringum miðjan hóp væri líklega ásættanlegt...

Svo var brunað af stað. Leiðin var nokkuð strembnari en ég er vanur. Mikið af upp-og-niður köflum, árfarvegir og svoleiðis, og þröngir stígar milli trjáa og grjóts. Mikið af kröppum beygjum og sandflákum. Sumstaðar hátt niður ef maður færi útaf. Eftir fimm km var ég búinn að breyta væntingunum. Að komast á leiðarenda væri bara flottur árangur - og þess virði að blogga um...

Svona um miðbikið var mér farið að ganga ágætlega. Hafði reyndar týnt þeim sem á undan voru (sem var í lagi því ýmsir þeirra villtust af leið) og langt var í næsta mann á eftir mér. Reyndar upplifði ég þá skrýtnu reynslu að láta taka framúr mér, ekki einu sinni heldur tvisvar, af hlaupurum! Það var svolítið undarleg tilfinning, skal ég viðurkenna. En, þrátt fyrir þá smán, var ég farinn að venjast stígnum og farinn að njóta hjólatúrsins.

Á sextánda kílómetra gerðist hins vegar það sem enginn hjólreiðamaður vill að gerðist. Það sprakk! Allt í einu var eins og framdekkið væri á búðingshlaupi og einhverjum sekúndum síðar var dekkið loftlaust. Ég af baki - var reyndar vel búinn með varaslöngu, bætur o.fl. - og reif dekkið af. Fann sökudólginn, þyrni sem hafði stungist á bólakaf í dekkið. Varaslangan var sett í - tók ekki nema mínútu eða tvær - og ég fór að pumpa. En ekkert loft kom í hana. Hún semsagt sprungin líka.

Í framhjáhlaupi má nefna að þetta er þriðja slangan, keypt í Erninum, sem hefur verið ónýt þegar ég ætlaði að nota hana. Hrikalega lélegt og svekkjandi.

Ég fór því í bótaframkvæmdir. Það gekk illa. Fyrsta bótin klúðraðist fyrir klaufaskap. Sú næsta límdist rétt á, en þegar ég pumpaði heyrði ég að enn lak. Komst að því að ekki var nóg með að þyrnirinn hefði stungist inn í slönguna, heldur gekk hann út úr henni hinu megin. Tvö göt frá sama þyrni...

En loksins komst ég af stað aftur. Allt stússið tók 20 til 25 mínútur, svo maður var orðinn vel aftarlega í röðinni. En, náði á leiðarenda og bara mjög sáttur.

Skemmtilegt að taka þátt og næst verð ég búinn að prófa varaslönguna!!

Endurfundir
Gulla hafði áhyggjur af mér, því ég skilaði mér ekki áður en 5 km skokkið/gangan var ræst. Var hún helst á því að löggan hefði pikkað mig upp einhvers staðar og líklega stungið mér í steininn... Hugmyndaflugið hjá sumum!

En svo var auðvitað ekki og síðar urðu fagnaðarfundir okkar.

En mesta stuðið var litaskemmtiskokkið. Allir þátttakendur fengu litaduft og rétt áður en skokkið hófst áttu allir að úða dufti á næsta mann og annan. Rúnar Atli var með sundgleraugu til að varna dufti í augun.

Síðan gátu áhorfendur keypt duftpoka og röðuðu sér meðfram upphafi hlaupaleiðarinnar og gáfu þátttakendum annan litaskammt.
Verið að dreifa dufti
Rúnar Atli búinn að tæma pokann og glottir
Rúnar Atli tók svo sprettinn og virtist eiga nóg eftir þegar skokkinu lauk.

Ein mynd af lokum sem ég stal af fésbókarsíðu Ingibjargar Jónsdóttur.

Allir kátir enda búið að vera gaman

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...