13. október 2014

Malaví-vatn heillar

Enn er ég kominn að ströndum Malaví-vatns. Það heillar. Enda fallegt.


Hvern langar ekki að vera á svona stað?

Tilgangurinn er köfun. Til að mega öðlast köfunarréttindi þarf maður að hafa náð 10 ára aldri. Rúnar Atli beið með óþreyju eftir þeim tímamótum. Núna loksins gafst svo tækifærið, en það er einnar viku miðannarfrí í alþjóðaskólanum. Við tveir fórum því í bíltúr norður til Nkhata-flóans.


Gulla þarf að læra og læra, svo við höfum ekki mikið samviskubit yfir að skilja hana eina heima.

Ekki mikið, en þó smá.

Rúnar Atli er búinn að vera á kafi á námskeiðinu sínu í dag. Að horfa á vídeómyndir - hann var búinn að stúdera kennslubókina í nokkurn tíma áður en við lögðum af stað - og svo kafaði hann tvisvar. Þetta voru kafanir á afmörkuðu svæði, yfirleitt gerðar í sundlaugum. En hér er ekki um sundlaug að velja, heldur er notað grunnt svæði í vatninu. Fiskar að synda í kringum mann og svoleiðis.

Hér er hann að gera búnaðinn tilbúinn. Að sjálfsögðu er hluti af námskeiðinu að læra það.



Ég reyni að dunda mér eitthvað á meðan hann er í sínu stússi. Fer nú létt með það.

Fór tvisvar í vatnið að „snorkla“ - veit ekki annað orð yfir þetta á íslensku. Notaði tækifærið að æfa mig að nota áttavita í vatninu. Þetta er eiginlega í fyrsta skiptið sem ég snorkla af alvöru. Það var virkilega gaman. Að líða þarna yfir lífríkinu í vatninu. Merkilegt hvað dýpið skipti mig engu máli. Mér leið ekkert illa þótt væri kannski átta til tíu metra dýpi og ég nokkuð langt frá landi. Ég bara sveif fyrir ofan, fannst mér. Svo stakk ég mér svo niður, þrjá til fjóra metra, ef mér þótti eitthvað nógu merkilegt til þess. Rakst t.d. á krabba sem var á vappi þarna og renndi mér nokkrum sinnum niður að honum. Honum þótti greinilega nóg um athyglina og hvarf að lokum inn í klettasprungu.

Rúnar Atli er í sínu elementi að sulla í vatninu. Þegar hlé er á köfunum þá syndir hann og prílar á bát sem er hérna.

Gaman hjá okkur.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...