29. júní 2014

Köfunarhelgi

Þessari helginni hef ég eytt við Maclear höfðann við strendur Malaví-vatns. Vegna vinnu var ég niður í Mangochi-héraði síðustu virku daga vikunnar og þótti tilvalið að taka köfunarhelgi í kjölfarið. Innan við 20 km útúrdúr að koma hingað. Ég er jú einn heima, þar sem Gulla og Rúnar Atli eru farin til Íslands.

Reyndar var Rúnar Atli ekki alveg sáttur við að ég færi að kafa án sín, þegar ég sagði honum af þessum áformum mínum. En hann sættist á þetta að lokum, annars vegar vegna þess að hann yrði á Íslandi, og hins vegar vegna þess að ég lofaði að ég myndi ekki kafa með „köfunarvinum“ hans. Sem ég stóð við.

Ég gisti á frekar fábrotnu en notalegu gistiheimili. Mgoza Lodge heitir það. Ætli séu ekki sex eða átta herbergi þarna. Enginn íburður, en notalegt viðmót starfsfólks. Og fínn matur. Herbergið opnast út í lítinn garð þar sem er sundlaug, ja, eða eiginlega baðlaug. Varla hægt að synda í þriggja metra langri laug, eða hvað? Ég tók reiðhjólið mitt með í ferðina og geymdi það inni á herberginu hjá mér. Algengustu viðbrögð heimafólks þegar það sá mig hjóla um þorpið er: „nice bike“ eða „very nice bike.“ Einn garðyrkjumaðurinn sagði eitthvað í þessa átt við mig þegar ég tók hjólið út úr herberginu í morgun. Ég leit kankvís á hann og sagði: „Alveg rétt, enda sef ég við hliðina á því!“ Hann var smástund að fatta grínið, en svo færðist breitt bros yfir andlit hans.

Það hefur verið meiriháttar að vera á hjóli. Maður losnar við þetta endalaust kvabb frá sölufólki og svo getur maður skoðað miklu meira en fótgangandi. Virkilega gott.

En, ég fór sem sagt að kafa. Nýtti mér þjónustu fyrirtækis sem heitir Cape Maclear Scuba, og var ánægður með þjónustu þeirra. Allt stóð eins og stafur á bók og þeir virðast vita hvað þeir eru að gera. Ég fór tvisvar út með þeim, í gærmorgun og núna í morgun. Í hvort skipti köfuðum við tvisvar, með hálftíma og fjörutíu mínútna millibili. Eins og alltaf var þetta meiriháttar.

Núna hef ég kafað fimmtán sinnum, og held það sé ágætt miðað við að hafa fengið réttindi í byrjun mars. Smám saman er ég að ná betra valdi á sjálfum mér í vatninu. Þetta er svona svipað og að hjóla, jafnvægið er lykilatriði. Það sem ruglar mann í vatninu, mig a.m.k., er að mesta kúnstin er jafnvægi upp og niður. Ekki að síga niður endalaust og ekki að þjóta upp á við, heldur að halda sér á þeirri dýpt sem maður vill vera. Ég bæti mig í þessari kúnst í hverri ferð. Fann töluverðan mun frá í fyrstu köfuninni í gærmorgun og þeirri seinni í dag. Undir lokin gat ég haldið mér kyrrum með andlitið í svona 20 sm fjarlægð frá þar sem fiskar eru að dunda sér. Þegar manni tekst þetta, þá halda fiskarnir bara áfram að gera það sem þeir eru að gera, en ef maður buslar mikið þá þjóta þeir í burtu. Svo er ég farinn að geta haldið upp-niður jafnvægi þótt höfuðið vísi niður, t.d. þegar maður kemur yfir klett og kíkir niður fyrir hann og undir. Þetta þótti mér erfitt, en er allur að koma til.

Svo prófaði ég að kafa inn á milli klettadranga og smokra mér á milli þeirra eins og leið lá. Mig langar nefnilega svolítið að læra að kafa í umhverfi þar sem er lokað fyrir ofan, t.d. í hellum og skipsflökum. Þetta gaf svona nasasjón af því, án þess þó að þak væri yfir.

Reyndar lenti ég í smáævintýri í seinni köfuninni í gær. Við vorum fjórir saman og ég var að skoða eitthvað merkilegt. Að mér fannst. Svo ætlaði ég að elta hópinn, en sá bara ekki nokkurn mann! Búinn að týna hópnum. Þetta þykir nú ekki fínt meðal kafara, hvort sem er að týna einum kafara úr hópnum, eða týna hópnum. Menn eru paraðir saman og eiga að fylgjast hvor með öðrum. En, ég hélt haus þrátt fyrir að vera allt í einu einn og yfirgefinn. Stressaðist ekki, heldur rifjaði upp frá námskeiðinu mínu og kennslubókinni hvað ætti að gera. Sem er að snúa sér heilan hring, kannski tvo, á sama stað og leita að fólkinu eða loftbólum. Loftbólur gefa jú til kynna kafara. Gera þetta í mínútu eða svo. Ef ekkert sést, þá fara hægt og rólega upp á yfirborðið. Ekki fara af stað í einhverja átt að leita, því líkurnar eru meiri en minni að maður fari í ranga átt. Ég sem sagt gerði allt samkvæmt bókinni. Kom í ljós, þegar ég kom úr kafi, að ég var svona 50-100 metra frá bátnum okkar. Þar var hópurinn nýbúinn að koma úr kafi, svolítið stress yfir að ég var ekki með. Allt fór því vel. Ágætt að lenda í svona þegar aðstæður eru góðar. Bæði til að æfa það sem á að gera og eins til að muna að passa sig.

En helgin hefur verið fín. Sit núna á Gecko Lounge, horfi yfir vatnið og snæði karríkjúkling og hrísgrjón. Milli þess sem ég pikka þetta inn.

Svo er að halda heim á leið.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...