22. maí 2014

Strákahelgi

Nú erum við Rúnar Atli í Nkhata Bay. Hér ætlum við að vera fram á sunnudag og njóta lífsins. Gulla var búinn að tala í einhvern tíma að hún þyrfti smáfrí frá okkur tveimur - ég meina’ða… frí frá okkur? - svo við ákváðum að skella okkur norður í land. Auðvitað virðir maður óskir eiginkonunnar, hvað annað? Nú er meiningin að sulla í Malaví-vatni og kafa svolítið.



Ég er orðinn alveg sjúkur í köfunina… og Rúnari Atla finnst hún líka spennandi. Ég skelli mér í vatnið um níuleytið í fyrramálið og á sama tíma ætlar guttinn að snorkla með einum leiðbeinandanum hér. Svo fer hann „niður“ um hádegisbilið. Kannski ég snorkli þá á meðan. Kemur allt í ljós.

En aksturinn til Nkhata Bay er langur. Tók hann okkur nærri því sex klukkustundir. Tók ég mér því sumarfrísdaga og hann fékk frí í skólanum. Við lögðum af stað skömmu eftir hádegi og hér verðum við til sunnudags.

Ferðalagið gekk eins og í sögu. Hér voru forseta-, þing- og sveitarstjórnarkosningar í fyrradag, og er höfuðborgin búin að vera á hálfum hraða síðan þá. Á leiðinni norður virtist hins vegar allt vera í sínum föstu skorðum. Eins og alltaf var endalaust af fólki á gangi meðfram þjóðveginum. Seinni helminginn af leiðinni hefði ég eiginlega þurft að skvetta úr skinnsokknum, en ég fann aldrei nógu mikið næði til þess. Malavar þurfa ekki næði til svona lagaðs - snúa bara baki við veginum og láta góssa. Ég er hins vegar of spéhræddur fyrir svoleiðis. Hélt því í mér.

Við náðum uppeftir fyrir myrkur. Fengum okkur kvöldmat og gripum svo í spil. Nú styttist í háttatíma. Vonandi gerist eitthvað skemmtilegt hjá okkur næstu tvo daga., þess virði að rata hingað inn.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...