Í dag lögðum við af stað í fyrsta áfanga ferðalagsins milli Windhoek og Lilongwe. Ef allt fer samkvæmt áætlun, þá verðum við sex daga á leiðinni. Af þeim eru fimm ferðadagar. Einn hvíldardagur er áætlaður. Í Simbabve, við Viktoríufossana, hvorki meira né minna!
Þegar svona ferð er skipulögð, þá áttar maður sig á stærð Namibíu. Af þessum fimm ferðadögum, er helmingur innan Namibíu. Tveir og hálfur, svona næstum því. Við rétt komum við í Botsvönu, og aksturinn innan Simbabve er ekki mikill. Síðan verða tveir akstursdagar í Sambíu. Sá fyrri frá Viktoríufossum til höfuðborgarinnar Lusaka og sá seinni frá Lusaka og yfir til Lilongwe.
Allt þetta förum við á litlum Daihatsu Siríon, með kerru í eftirdragi. Dæinn er mjög rúmgóður fyrir farþega, en farangursrými er af skornum skammti í staðinn. Því urðum við að útvega kerru fyrir farangurinn. Ég set ábyggilega mynd af kagganum með kerruna hér inn á bloggið við tækifæri.
Fyrsti áfangi var sem sagt í dag. Góðir 500 km eða svo. Áfangastaðurinn var svokallað Steinhús í bæ sem heitir Grootfontein, en það útleggst „mikla vatnsuppspretta“ eða eitthvað í þá áttina á því ylhýra. Hér gistum við í nótt, en förum síðan snemma af stað í fyrramálið. Fyrst mun leiðin liggja í norður, til Rúndú, en síðan beint í austur. Úteftir Kaprívi-ræmunni til Katíma Múlíló. Sá spotti slagar í 800 km.
Aksturinn í dag gekk vel. Ókum frekar rólega á namibískan mælikvarða, milli 100 og 110 km/klst. Það þykir hægt. En á áfangastað komumst við klakklaust.
Meira síðar.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Bara alltaf í Amsterdam
Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...
-
Áðan skruppum við í göngutúr um nágrennið okkar. Ég var búinn að stúdera næstu götur svolítið á kortavef hr. Gúguls og var kominn með áætlun...
-
Rúnar Atli fékk að fara eftir skóla heim til bekkjarbróður síns, Liams. Liam og Rúnar Atli eru virkilega góðir vinir og alltaf mikill spenni...
-
Þá er komið að því að ræða viðhaldið. Nei, nei, hvað er að ykkur? Skammist ykkar. Auðvitað er allt er í fínu hjá okkur Gullu. Ja, a.m.k....
Engin ummæli:
Skrifa ummæli