Stundum fara dagarnir öðrum vísi en ætlað er.
Við vorum í rólegheitum að undirbúa kvöldmatinn áðan. Heimagerð pitsa, og þá taka auðvitað allir þátt. Rúnar Atli var eitthvað að baksa með ananasbitadósina þegar hann sker sig á bólakaf í annan þumalinn. Dósarlokið alveg flugbeitt og skurðurinn náði nærri því hálfan hringinn.
Foreldrarnir eru nú nokkuð sjóaðir í slysum og var þotið eftir sjúkrakassanum. Sárið þrifið og bundið um.
Eftir matinn ákváðum við nú að skoða þetta aðeins betur. Leist okkur nú ekki meira en svo á þetta. Um leið og bindið var tekið af fór að blæða á ný og sárið djúpt. Var því arkað út í bíl og stefnan tekin á slysavarðsstofuna.
Slysó hér í Windhoek er að mörgu leyti þægilegri staður en slysó í Reykjavík. A.m.k. í minningunni. Yfirleitt frekar rólegt og biðin ekki mjög löng. Ja, og þó, manni finnst alltaf erfitt að bíða þegar slys hefur gerst, jafnvel þótt ekki sé mjög alvarlegt.
Ég tók eina mynd af puttanum á meðan við biðum eftir lækninum. Slatti af blóði og þó er þetta örugglega tveimur og hálfum til þremur tímum eftir slysið.
Svo kom loksins læknirinn og tók til starfa. Hann límdi sárið saman með einhverju fljótandi lími. Setti síðan tvö límbönd þar yfir og grisjusokk yfir þau. Lítur þetta mjög snyrtilega út.
Verst finnst Rúnari Atla þó að komast ekki í sundkennsluna í næstu viku.
1 ummæli:
Þetta lím er algjör snilld, miklu einfaldara en að þurfa að láta sauma svona sár.
kveðja úr Eyjabakkanum.
Skrifa ummæli