13. janúar 2006

Skólafötin

Þannig er nú í Namibíu að skólakrakkar þurfa að vera í skólabúningum. St Paul's - skólinn hennar Tinnu - en engin undantekning þar á. Nú þegar Tinna Rut var búin að taka inntökuprófið og við vissum að hún væri pottþétt inni, þá þurfti að fara með langan fatalista í búð sem heitir Karseboom til að versla föt. Var það nú meira ævintýrið, skal ég segja ykkur. Við mættum fyrir utan búðina og þá var biðröð fyrir utan. Orðið allt fullt inni og hleypt inn í hollum. Þetta minnti mann á skemmtistaði einhvern tímann eftir miðnætti hérna í den... Svo komumst við inn og þar var kraðak af fólki. Mér tókst þó að ná í afgreiðsludömu og þegar hún áttaði sig á að okkur vantaði allan pakkann þá vék hún ekki frá okkur fyrr en allt var komið. Við keyptum 3 skyrtur,
2 pils, bindi, jakka, íþróttagalla, æfingagalla og skó. Síðan þegar þetta var allt komið þá tók við biðröðin til að borga. Þar leið góð stund, en að lokum hafðist þetta. Við vorum alveg gjörsamlega búin þegar þetta var yfirstaðið.

Ekki tók betra við næsta dag þegar við gerðum atlögu að ritföngum. Eins og með fötin þá fær maður langan lista, mjög nákvæman. Svona marga HB blýanta og H3 og hvað þeir nú heita allir. Ekki dugir að kaupa bara einhverjar skjalamöppur, heldur þarf framleiðandinn að vera Bantex. Hvað um það, við inn í búð sem heitir EduMeds, rétt hjá sjávarútvegsráðuneytinu þar sem ég vann einu sinni. Þar var í fyrsta lagi vandamál að fá körfu til að setja vörurnar í, en Tinnu Rut tókst það þó með lagni þegar ég var kominn með svo fullar hendur af blýöntum, áherslupennum, heftara og heftum, gatara, plastmöppum - þið áttið ykkur á þessu - að ég gat varla hreyft mig úr stað án þess að missa nokkuð. Og svo þegar búið var að tína allt til í körfuna, þá tók við biðröð á kassann. Hún hreyfðist hægt. Og voðalega fannst mér heimildin á kortið lengi að koma í gegn - og alltaf lengdist röðin... Því miður fékkst ekki allt sem þurfti í EduMeds, svo við þurftum að fara í aðra ritfangaverslun, og þar beið önnur biðröð. Ég skaust þó í hraðbankann í millitíðinni til að þurfa ekki að bíða aftur eftir heimildarnúmeri. Gott að þetta er bara einu sinni á ári. Við Tinna Rut höfum heitið því að gera þetta næst í nóvember, eða strax þegar hún fær ritfangalistann sinn!

1 ummæli:

Davíð Hansson Wíum sagði...

Ég ætti að geta kommentað hér, enda bloggspottari. Koma svo með meira blogg því við viljum heyra meira, spurning um að þú æsir upp í þér bloggarann...

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...